Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 18:01:59 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:01]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hann kom þarna inn á mjög mikilvægan þátt sem varðar það að greiða af þessari meintu skuld í íslenskum krónum eða erlendri mynt. Að sjálfsögðu er miklu dýrara fyrir okkur að gera það í erlendri mynt en í íslenskum krónum eins og er búið að sýna fram á að okkur er heimilt að gera.

Það er annað sem mig langar að velta hér upp við hv. þingmann og það er að í dag upplýsti einhver virtasta fréttaveita heims, Bloomberg-fréttaveitan, að á Evrópuþinginu hefði verið samþykkt ályktun eða bókun í þá veru að skorað væri á Ísland að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt Icesave-samkomulaginu ella gæti það haft neikvæð áhrif á umsóknina að Evrópusambandinu. Nú er búið að hræða okkur hér frá því í sumar á að hitt og þetta gerist ef eitthvað annað gerist ekki, ef við samþykkjum ekki að ganga í Evrópusambandið, ef við samþykkjum ekki Icesave, 23. október var dómsdagur o.s.frv. Ekkert af þessu hefur komið á daginn og nú er búið að lýsa því yfir af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Norðmanna meðal annarra, og er skjalfest í norska þinginu, að lánin til okkar eru okkur opin. Í raun sagði Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs, að allt frá 28. október hefðu þessi lán verið til reiðu fyrir Íslendinga.

Mig langar því að biðja hv. þingmann að reyna að komast að því með mér hvað það er sem rekur nú á eftir að við samþykkjum þennan óskapnað sem þessi samningur er. Er það þessi hótun Evrópusambandsins eða er það eitthvað annað sem kann að búa þar að baki?