Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 19:03:06 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:03]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þessar nýju og merkilegu upplýsingar sem komu fram í andsvari hennar. Ég get algjörlega tekið undir þetta. Það er í rauninni með ólíkindum — ég hef ekki lesið frásögnina af þessum fundi hæstv. landbúnaðarráðherra en þetta segir okkur hve ósamstiga og ómarkviss núverandi ríkisstjórn er, og við vissum það nú reyndar fyrir fram.

Þingmaðurinn spurði mig um þann endalausa hræðsluáróður sem hæstv. forsætisráðherra býður okkur upp á. Það er náttúrlega með ólíkindum. Við höfum farið í gegnum þetta trekk í trekk. Það átti allt að lagast á Íslandi, bara ef Davíð færi úr Seðlabankanum. Það átti allt að lagast á Íslandi ef við sæktum um ESB, bara um leið. Það var farið með umsóknina tvisvar af því að það virkaði ekki. Það átti allt að lagast ef við bara samþykktum Icesave. (VigH: Rétt.) Við samþykktum Icesave í sumar, það var það ekki nóg og málið er komið aftur. En aumkunarverðasta hræðsluáróðursræðan var flutt hér af hæstv. félagsmálaráðherra, man ég, í umræðunni um stefnuræðu forsætisráðherra,. Það var nú einstaklega aumkunarvert, ég held að grasið hafi ekki átt að gróa á næsta ári ef Icesave yrði ekki samþykkt. Auðvitað er þetta fjarstæða.

Eins og ég reyndi að sýna fram á í ræðu minni áðan, og sést skýrt og greinilega af þessari einu heilu fundargerð sem framkvæmdarvaldið leyfir okkur svo náðarsamlega að lesa, var aldrei farið af fullkomnum krafti í að kynna sjónarmið okkar. Gert var hlé til að Bretar og Hollendingar gætu komið og kynnt sín grundvallarsjónarmið en hvergi í fundargerðinni koma orðin „grundvallarsjónarmið Íslendinga“ fram. Það er ekki verið að kynna grundvallarsjónarmið Íslendinga. Þetta er allt saman hið versta mál, frú forseti.