Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 21:19:49 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða ræðu, fyrstu ræðu hennar í þessu svokallaða málþófi. Það þarf nú að fletta upp í orðabókinni líklega eftir hvað það þýðir nákvæmlega, því ég skil þetta ekki alveg.

Mér þótti það merkilegt andsvar eða ræða, eða hvað sem það var nú, sem hæstv. ráðherra flutti áðan. Hann sagði í raun að þær upplýsingar sem þeir ágætu herramenn sem þingmaðurinn minntist á væru ekki trúverðugar, en þær komu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Eins var gefið í skyn að Seðlabankinn væri stundum á hálum ís. Maður veltir því fyrir sér á þessari stundu hvaða tölur og gögn ríkisstjórnin er þá að nota þegar hún vinnur með áætlanir sínar og framtíðarsýn. Hvað er það nákvæmlega sem hæstv. ráðherra byggir á?

Ég vona að hann sé á mælendaskrá og taki þátt í umræðunni eða komi í andsvar, ég man ekki hvort hann má vera á mælendaskrá eða ekki þar sem hann er ekki þingmaður, en blandi sér í þetta áfram. (Gripið fram í: Jú, jú.) Ég bara man þetta ekki.

Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í þennan ólukkusamning og það frumvarp sem hér liggur fyrir. Mikil óvissa er í öllu þessu máli og það er búið að viðurkenna, meira að segja af forsætisráðherra, að gríðarleg óvissa hvílir á þessu. Er það forsvaranlegt að mati hv. þingmanns að Alþingi samþykki slíkan samning sem er opinn tékki fyrir framtíðina? Við vitum ekki hvað hann verður hár, það er ekki búið að skýra hvort við erum hugsanlega að brjóta stjórnarskrána með þessu, það er óvissa um efnahagslegu fyrirvarana, eða hvort við getum þetta hreinlega og óvissa er um lagalega þáttinn. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún deili þeim áhyggjum með mér og hvort þessi óvissa (Forseti hringir.) sé forsvaranleg fyrir framtíðina.