Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 21:24:07 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svar hennar.

Ég tek undir það sem fram kom. Maður fer að velta því fyrir sér, ekki síst í ljósi þess að við erum að tala um þennan Icesave-samning og miklar upphæðir, að svo virðist vera að þeir sem ætla að samþykkja þetta byggi m.a. skoðun sína á því að við getum borgað þetta með einhverjum hætti, og maður veltir því fyrir sér hvaða tölur búa þar að baki. Hvað býr þar að baki að menn geti réttlætt þetta? Varla er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, áætlanir þeirra miðað við orð ráðherrans áðan og það er spurning með Seðlabankann.

Mig langar að spyrja hv. þingmann í þessu seinna andsvari mínu. Nú munum við borga alla töluna samkvæmt frumvarpinu sem uppi er. Við yrðum væntanlega dæmd ef þetta færi fyrir dóm að borga alla upphæðina. Er einhver munur á því að borga alla upphæðina samkvæmt samningnum eða samkvæmt dómi? (Forseti hringir.) Eða erum við að tala um stolt þjóðarinnar?