Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 21:27:50 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mig langar að biðja hæstv. forseta að beita sér fyrir ákveðnu máli. Nú er það þannig, frú forseti, að það voru um 30 þingmenn sem óskuðu eftir því að fundur yrði í kvöld og ekkert nema allt gott um það að segja og við erum hér mjög mörg frá stjórnarandstöðunni sem ætlum að tala. Hins vegar er enginn af þingmönnum stjórnarliðsins á mælendaskrá, frú forseti. Ég hef ákveðnar áhyggjur af því að þingmennirnir viti ekki að fundurinn stendur enn. Ég held að mjög [Hlátur í þingsal.] mikilvægt sé að forseti beiti sér fyrir því að þeir verði upplýstir um það þannig að þeim ágætu þingmönnum stjórnarliðsins sem ákváðu að hér skyldi verða kvöldfundur verði gert viðvart þannig að þeir geti komið og skráð sig á mælendaskrá því það er enginn þeirra sem ætlar að tala þrátt fyrir að hafa viljað svo gjarnan fá þennan fund. Ég vildi bara koma þessu á framfæri við hæstv. forseta varðandi þetta því það er enginn annar, held ég, en forseti sem getur látið þetta fólk vita.