Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 21:29:01 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:29]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við erum í þeirri sérkennilegu stöðu að tala um mál sem við afgreiddum í sumar en þá afgreiddi Alþingi Íslands lög sem þessu máli tengjast. Það er erfitt að átta sig á því af hverju við erum að ræða þetta núna.

Ég held að full ástæða sé til að menn kalli núna utanríkismálanefnd saman því að við erum búin að fá ákveðnar skeytasendingar, virðulegi forseti, frá nágrannaþjóðum okkar. Við fengum skeytasendingu frá Evrópusambandinu, nánar tiltekið frá þingi þeirra, þar sem þeir segja í ályktun: Verði Icesave ekki afgreitt fljótlega gæti Ísland farið aftur fyrir umsóknarríki á Balkanskaga í forgangsröð ESB. (Gripið fram í: Það gengur ekki.) Hvorki meira né minna, virðulegi forseti. Við erum búin að fá skeytasendingu frá Gordon Brown. Og hér fyrr í kvöld fór einn meðlimur Verkamannaflokksins, hæstv. utanríkisráðherra, mjög mikinn. Ég held að æskilegt væri að menn mundu kalla saman utanríkismálanefnd og hæstv. utanríkisráðherra, sem er svo lánsamur að vera í breska Verkamannaflokknum, og fara aðeins yfir viðbrögð okkar (Forseti hringir.) við skeytasendingu frá Evrópusambandinu og Bretlandi.