Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 21:49:26 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:49]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langar nú samt til að hvetja hæstv. ráðherra til að taka til máls og flytja eina ræðu fyrst hann er staddur hér á annað borð. Ég held að það væri, eins og stjórnarþingmenn sögðu við okkur í morgun, ekki ofverkið að gera það og koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Ég vil líka benda á það, frú forseti, að þegar ákveðið var að halda þennan næturfund í kvöld — allt í lagi með það — tóku 29 þingmenn ákvörðun um það að við skyldum vera hér í kvöld. Mér finnst, frú forseti, að þetta fólk ætti að vera hér með okkur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Ég vil líka benda á eitt sem ég er mjög hugsi yfir, þegar við vorum að ræða t.d. Evrópusambandsaðildina voru hér stjórnarþingmenn sem voru mjög virkir í andsvörum, sem segir mér að þeir höfðu ákveðna trú á því máli og einlægni, en í þessu máli hafa margir stjórnarþingmenn enga trú á því sem þeir eru að gera. Það er það sem er. Þeir hafa engan metnað fyrir því, þeir eru bara búnir að ákveða að gera þetta.

Svo að lokum, frú forseti, ég skil ekki hvers konar vinnustaður þetta er, að ekki sé hægt að segja til um það hvenær þingfundi (Forseti hringir.) á að ljúka. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)