Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 22:42:54 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:42]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Er það ekki alveg í takt við hvernig þetta Icesave-mál hefur verið frá upphafi til enda? Þið munið sjálfsagt eftir leyniherbergjunum og ekki-bréfunum og samningnum sem var lekið á fjölmiðla o.s.frv. Kannski er svona mikið að gera í þýðingadeildinni, út af því að verið er að þýða svo mikið ESB-efni, að það hafi ekki verið tími til að þýða þetta yfir á íslensku fyrr en svona seint. En satt best að segja þá er ég ekki miðill, ég skil þetta ekki og þætti vænt um ef hæstv. forsætisráðherra gæti útskýrt þá töf. Kannski gleymdist þetta eða hvað? Það væri fróðlegt að vita. Ég óska eftir að hæstv. forsætisráðherra svari þessari áleitnu spurningu.