Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 22:43:53 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:43]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var einmitt akkúrat þetta sem ég var að biðja hæstv. forsætisráðherra um að upplýsa í ræðu minni en hún sá sér ekki fært að vera hér og taka þátt í umræðunni. Síðan ásakar hún þingheim um að væna hana um að gæta ekki íslenskra hagsmuna. Ég held einmitt að ef þeirri leynd yrði aflétt og eitthvert frumkvæði sýnt í að láta okkur fá gögn væri traustið kannski aðeins meira.

Hv. þingmaður ræddi um sameiginlegan breskan kunningja okkar, Hugh Bayley, sem við þekkjum báðar af störfum okkar í Íslandsdeild NATO-þingsins. Ég get vottað að það boð sem þingmaðurinn talaði um að henni hefði verið veitt um að koma til Bretlands, það er nákvæmlega það sem hann hefur einnig boðið mér. Í fyrra, ég vil upplýsa það hér og nota þetta tækifæri, fyrir ári síðan fundaði Íslandsdeild NATO-þingsins á ársfundinum í Valencia með einmitt þessum sama þingmanni. Því fagna ég að (Forseti hringir.) hv. þingmaður hafi tekið þetta upp við forsætisnefnd og ég vona svo sannarlega að (Forseti hringir.) tekið verði vel í þessa málaleitan.