Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 23:23:41 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:23]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar athugasemdir vegna þess að þær eru réttmætar, og þrátt fyrir það kalla stjórnarliðar, sem ekki hafa séð sér fært að mæta í ræðustól til að fjalla efnislega um málið, fram í að þetta hafi verið marggert, þetta hafi verið margrætt o.s.frv. Nú er þessi grein rituð 19. nóvember 2009 og ég kannast ekki við að fjallað hafi verið um efni hennar í fjárlaganefnd á þeim tíma. Ég kalla hér með eftir því að menn komi upp í ræðustól og ræði þetta mál í staðinn fyrir að gjamma fram í með einhverjar fullyrðingar sem þeir þurfa ekki að rökstyðja. Ég skora á hv. þingmenn stjórnarliðsins, sem eru akkúrat tveir hér inni þessa stundina, auk hv. formanns fjárlaganefndar, sem enn þá situr í hliðarsal, að koma hingað upp og lýsa skoðunum sínum. Ég er þess fullviss að hæstv. forseti mundi jafnvel sjá sér fært að hliðra til í mælendaskrá svo sjónarmið hv. stjórnarþingmanna komist að í umræðunni.

Herra forseti. Ég vil ítreka þá beiðni sem fram kom á þriðjudaginn í þinginu og var rædd töluvert, það er sú beiðni sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson fjallaði eilítið um í andsvari sínu, að málið verði kallað til nefndar til að ræða athugasemdir Sigurðar Líndals. Ég tel að það sé vel þess virði að eyða nokkrum tímum í það vegna þess að við erum að tala hérna um sjálfa stjórnarskrána. Við erum að tala um grundvöll okkar stjórnskipunar. Það er ekkert lítið mál. Ég tel að það sé gríðarlega alvarlegur hlutur gagnvart komandi kynslóðum að ætla að láta það fara órætt í gegnum þingið af hálfu ríkisstjórnarflokkanna.

Nú er það svo að hver og einn þingmaður er aðeins bundinn af eigin sannfæringu. Ég skora enn og aftur á hv. þingmenn stjórnarliðsins að skoða eigin hug og ef þeir eru algjörlega sannfærðir um að þetta sé leiðin sem fara á fyrir íslenska þjóð, hvers vegna geta þeir þá ekki komið upp í ræðustól og útskýrt það og rökstutt sinn málstað. Ég einfaldlega skil það ekki í þessu stærsta máli (Forseti hringir.) Íslandssögunnar.