Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 23:28:11 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:28]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir að koma upp í andsvar við mig og hrósa henni fyrir hugrekkið að þora það. Ég vil jafnframt hrósa þingmanninum fyrir staðfestu hennar varðandi þetta atriði vegna þess að það er gríðarlega mikilvægt að þetta síist inn í kollinn á þeim sem fylgjast með umræðunni og þá sérstaklega að hv. stjórnarþingmenn taki þetta atriði til athugunar. Það verður einfaldlega gert með því að halda því til haga og það hefur hv. þm. Vigdís Hauksdóttir verið dugleg við að gera.

Indefence-samtökin hafa gert ítarlega greinargerð um fyrirvara Alþingis og þær breytingar gerðar eru í þessu nýja frumvarpi og vissulega fjallar það líka um viðaukasamningana. Ég get að mörgu leyti tekið undir álit samtakanna um þetta atriði. Ég tel að umfjöllun þeirra og aðkoma öll að þessu máli sé til fyrirmyndar. Ég hef áður, ég gerði það í ræðu minni á þriðjudag, hrósað samtökunum sérstaklega fyrir staðfestuna vegna þess að það er gríðarlega mikilvægt, hæstv. forseti, að við gefumst ekki upp. Það er fullt af aðilum í samfélaginu, og sérstaklega erlendis, sem vilja að við séum orðin leið, vilja að við gefumst upp, vilja að allri umræðu verði einfaldlega sópað undir teppið og málið ekki tekið inn í nefnd að nýju til að ræða það og það fari algjörlega orðrétt og óbreytt í gegnum þingið. Og mér sýnist að sú stefna stjórnarflokkanna, sú stefna forustumanna stjórnarflokkanna, sé ofan á þar sem óbreyttir þingmenn stjórnarandstöðunnar treysta sér ekki til að taka þátt í umræðunni og rökstyðja hvers vegna þeir ætli sér að styðja málið. Ég tel það gríðarlega mikilvægt og við skulum halda áfram að halda þessu atriði til haga.