Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 23:56:03 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:56]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ákaflega athyglisverða ræðu. Mig langar sérstaklega að víkja að þeim hluta ræðu hennar þar sem hún fjallaði um samspil þessa frumvarps og stjórnarskrárinnar. Það hefði sannarlega verið áhugavert að heyra skoðanaskipti hennar og stjórnarliða sem ætlað er að verja þetta ólukkans frumvarp sem við ræðum hér, en eins og við vitum öll eru stjórnarliðar þessa dagana haldnir ræðustólsfælni á lokastigi, þannig að ekki var við því að búast að hv. þingmenn stjórnarliðsins kæmu hingað til að taka þátt í þessari umræðu frekar en endranær.

Hv. þingmaður vék nokkuð að því sem kom líka fram í umtalaðri grein sem Sigurður Líndal prófessor emeritus skrifaði í blöð á dögunum, þar sem hann hélt því fram og vakti athygli á að í stjórnarskránni væri skuldbindingum sett ákveðin takmörk og það þurfi að gæta þess að þær stofni ekki fullveldi ríkisins í hættu. Nú er auðvitað mikil óvissa um það hverjar hinar raunverulegu skuldbindingar eru varðandi Icesave.

Ef við setjum þetta aðeins í samhengi við það sem við gerum hér í þinginu, þá eru að jafnaði lögð fram frumvörp fyrir þingið á hverju einasta ári til þess að breyta með lögum gjaldtökuheimildum upp á kannski einhverja fimmkalla, sem er þá vísbending um það að stjórnarskráin setur okkur mjög strangar skorður um það að við getum ekki framselt gjaldtökuvaldið. En í þessu tilviki erum við að véla um hundruð milljarða króna, kannski upp undir þúsund milljarða króna og enginn veit í raun og veru hver sú tala er og enginn veit í raun og veru hver skuldbindingin verður að lokum. Við vitum að þarna erum við örugglega komin út á mjög hálan ís gagnvart stjórnarskránni og þá vaknar auðvitað sú spurning: Hvað gerist næst? Verði þeim að ósk sinni í stjórninni og þetta verður að lögum skapast mikil óvissa í kringum stjórnarskrána. Þá vaknar auðvitað sú spurning sem ég vildi biðja hv. þingmann að velta fyrir sér, hvernig munu menn bregðast við? (Forseti hringir.) Við þekkjum dæmi um að slíkum málum hafi verið skotið fyrir dómstóla og dómstólar (Forseti hringir.) fellt sinn úrskurð. Þess vegna væri áhugavert að heyra (Forseti hringir.) vangaveltur hv. þingmanns.