Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 23:58:22 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:58]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrirspurnina og það að taka þátt í þessum umræðum hér.

Eins og ég sagði áðan geng ég um með stjórnarskrána þessa dagana, vegna þess að það lagafrumvarp sem liggur hér fyrir þinginu stenst ekki nokkra einustu skoðun. Stjórnskipunarfræðingar hafa bent á það í allt sumar og haust að þetta frumvarp standist ekki stjórnarskrána að þessu leyti, að hér sé verið að fara með óheft fjárveitingavald sem enginn getur raunverulega hönd á fest.

Því eins og ég sagði áðan og las hér upp úr 40. grein stjórnarskrárinnar, þá má ekki leggja á skatt eða breyta nema með lögum þar sem fjárveitingavaldið er hjá Alþingi, en eins og hv. þingmaður kom inn á er oft um lágar fjárhæðir að ræða.

Það sem er raunverulega að hér á landi er hvað löggjafinn er illa staddur bæði faglega og fjárhagslega. Í danska þinginu er rekin lagaskrifstofa þar sem starfa hátt í 20 manns, sem hafa það eitt að atvinnu sinni að lesa yfir lagafrumvörp, hvort sem þau eru frá stjórn eða stjórnarandstöðu, en eins og flestir vita er hefð fyrir því í Danmörku að þar starfi minnihlutastjórnir. Þar ríkir þetta traust. Þá þarf ekki að eyða tíma í að ræða hvort lög sem sett eru í danska þinginu standist stjórnarskrá eður ei. Hér fer meiri hluti tíma þingsins í að ræða þessi álitamál, því hér koma inn svo óvönduð frumvörp, algjörlega óyfirlesin og það kom líka fram í máli umboðsmanns Alþingis á opnum fundi með allsherjarnefnd nú fyrr í vikunni að þetta væri stórkostlegt vandamál hér á landi.