138. löggjafarþing — 32. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:03]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir athyglisverða ræðu, hún kom inn á margt í henni. En mig langar til að spyrja hv. þingmann vegna þess að hún kom inn á Brussel-viðmiðin að núna stendur það inni í svokölluðum viðaukasamningi við þetta frumvarp að samningurinn sé í samræmi við Brussel-viðmiðin. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort henni finnist svo vera. Og svo í framhaldi, af því að margir stjórnarliðar hafa haldið því fram af því að nú er búið að aftengja hina svokölluðu efnahagslegu fyrirvara að því leyti til að við þurfum alltaf að borga vexti og komi upp sú staða að við getum ekki staðið undir að borga vextina öðruvísi en fara það hratt inn í velferðarkerfið og menntakerfið að það muni sliga okkur, þá sé alltaf hægt að taka samningana upp aftur og vísa þá hugsanlega til þessara Brussel-viðmiða, þá velti ég því upp við hv. þingmann þegar þetta liggur fyrir og við erum búnir að skrifa undir samningana og viðurkenna það að Brussel-viðmiðin séu inni í þeim, hvað munu þá Bretar og Hollendingar segja? Munu þeir ekki hugsanlega segja að það sé búið að samþykkja það af okkar hálfu að samningarnir séu eftir Brussel-viðmiðunum og þeir þurfi þá ekki að ræða við okkur um það frekar? Mig langar að spyrja hv. þingmann að þessu.

Síðan langar mig líka að spyrja hv. þingmann um það, eins og hún vék að í ræðu sinni er búið að færa á milli, þ.e. úr lögunum sem voru sett hér, og inn í samningana sem eru túlkaðir eftir enskum lögum, og því langar mig að spyrja hv. þingmann: Hefði ekki verið eðlilegra og skynsamlegra fyrir okkur að við hefðum fengið sérfræðing í enskum lögum til þess að koma á fund hjá fjárlaganefnd og fara yfir nákvæmlega hvað þetta þýðir? Vegna þess að þeir lögfræðingar sem hafa komið fyrir nefndina eru ekki sérfræðingar í enskum rétti og sögðu að það væri í raun og veru mjög fáir einstaklingar sem þekktu til bæði ensks réttar og alþjóðlegs réttar, hvort það hefði ekki verið skynsamlegt fyrir nefndina að fá sérfræðing í enskum lögum til þess einmitt að fara yfir hvað þetta þýðir í raun og veru, þessar breytingar á þessum hlutum.