138. löggjafarþing — 32. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:08]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Athyglisverð spurning varðandi þær hugsanlegu skaðabætur sem við ættum rétt á hefði ríkisstjórnin staðið í lappirnar í gegnum þetta mál. Það er nefnilega þannig í breskum samningarétti að hann er túlkaður samkvæmt orðanna hljóðan og það sem er í samningnum kemur eitt til framkvæmda í þeim samningi sem um ræðir en ekki eitthvert hliðarákvæði. Þess vegna lögðu Bretar og Hollendingar svo mikla áherslu á að þetta ákvæði væri þarna inni, að við mundum afsala okkur þeim réttindum að sækja málið gegn skaðabótum út af hryðjuverkalögunum. Þess vegna voru þeir með þetta inni í samningnum til að tryggja sig að við gætum ekki farið í mál við þá því að í samningnum stendur þetta og þá erum við bundin af því og málið fer eftir breskum lögum þannig að málið er dautt. Það er búið að skrifa undir það og það er í Icesave-samningunum, því miður. Með þessa 35 milljarða sem við eigum að vera búin að greiða, þetta er svo sorglegt (Forseti hringir.) þetta mál og þetta er svo hræðilegt og þetta er svo mikil binding (Forseti hringir.) fyrir íslenska ríkið á meðan hér stendur yfir blóðugur niðurskurður. Þetta er ekki hægt.