138. löggjafarþing — 32. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:10]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir góða ræðu. Þetta er önnur ræða hennar og mér finnst hún samt vera rétt að byrja. Það er greinilegt að það er af nægu að taka hjá hv. þingmanni.

Ég vil spyrja hv. þingmann í fyrsta lagi í tengslum við þau bréfaskipti sem hafa verið á milli hæstv. forsætisráðherra og Gordons Browns og það er greinilegt að þau eru frekar mistæk í öllum samskiptum sínum við erlendar þjóðir, ríkisstjórn Íslands. Gott og vel. Við erum með bréfið núna og ég mun taka það upp í utanríkismálanefnd í fyrramálið hvernig þau samskipti öll hafa verið. Það er mjög sérkennilega að þessu staðið og margt sem vekur upp tortryggni.

Ég sé ekki betur, og ég vil fá skoðun hv. þingmanns á því, en að forsætisráðherra staðfesti í raun þá skoðun okkar hér á þingi að við höfum alla tíð sagt að það væri í rauninni búið að taka af lagaskyldu okkar, það væri búið að taka af okkur þennan rétt okkar til að leita til dómstóla. Því hafa stjórnarliðar neitað staðfastlega á þinginu. En mér finnst af lestri bréfsins frá forsætisráðherra að það sé verið að taka undir sjónarmið Breta, þ.e. að forsætisráðherra Íslands er í rauninni að segja: Já, við erum búin að falla frá rétti okkar til að skera úr um lagaskyldu okkar til að greiða þessa hörmungarsamninga. Ég vil sem sagt spyrja hv. þingmann um þetta, hvort hún sé sammála mér í því að bréfið innihaldi m.a. að forsætisráðherra Íslands sé búin að viðurkenna það að Íslendingar falla frá rétti sínum til að fá skorið úr um lagaskylduna vegna greiðslnanna.