138. löggjafarþing — 32. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:12]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Bréfasendingar og póstsendingar hæstv. forsætisráðherra nú í haust eru í einu orði sagt mjög grátlegar. Þar hefur hún verið — byrjum á tölvupóstinum til Stoltenbergs þar sem hún sagði: Ætlar þú nokkuð að standa fyrir því að við fáum norskt lán? Nú var sent bréf til Gordons Browns þar sem hún segir — ég hef sama skilning og hv. þingmaður á þessari bréfasendingu hennar til Gordons Browns að við séum að falla frá rétti okkar. Þetta er vægast sagt sorglegt. Mér liggur við að segja að maður sé farinn að hálfvorkenna þessari ríkisstjórn. Það er svo mikill undirlægjuháttur að ég veit ekki hvað liggur þarna að baki. Ég talaði um það í andsvari í dag að það hlyti að vera einhver samningur þarna á bak við. Það má segja að framkoma hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra beri það með sér að þau viti eitthvað meira en við almennir þingmenn vitum og ef svo er þarf það að koma fram áður en við samþykkjum þetta frumvarp. Svo kemur hæstv. forsætisráðherra fram og kvartar yfir því að okkur þingmönnum finnist hún ekki standa með íslensku þjóðinni í þessu máli. Þetta mál er að verða sorglegra og sorglegra eftir því sem líður á það. Raunverulega má segja að það sé búið að lúta í duft fyrir þessum erlendu höfðingjum sem sækja á okkur og ætla að sækja á okkur alla þessar greiðslur.