138. löggjafarþing — 32. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:16]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Það mál sem hér er til umræðu á sér langa sögu í þinginu, en þótt sagan sé orðin löng hefur málið tekið þvílíkum breytingum á þeim tíma sem það hefur verið í þinginu að í raun má segja, eins og hér hefur komið fram, að nýtt mál hafi komið fram í hvert skipti, við séum nú að ræða þetta mál allt að því frá grunni. Auðvitað hafa ákveðnir þættir málsins verið óbreyttir frá upphafi. Það er óbreytt og stendur óhaggað að það eru gríðarlegar byrðar sem munu lenda á okkur Íslendingum, sama hvernig þessu máli er snúið. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að við erum sammála um, öll trúi ég, að það er mjög freklega gengið á rétt okkar Íslendinga. Um það þarf ekkert að deila. Það sem skiptir máli fyrir okkur núna er að reyna að ljúka þessu máli þannig að við það geti Íslendingar búið. Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að því miður er ekki hægt að komast að neinni annarri niðurstöðu en að frumvarpið, eins og lagt er upp með það, muni valda okkur Íslendingum miklum og allt að því óbærilegum búsifjum.

Eftir að þingið hafði farið höndum um frumvarpið sem kom fram upphaflega var í raun og sanni hægt að segja að við Íslendingar gætum úr því sem komið væri búið við þá niðurstöðu sem fengin var á Alþingi í ágústmánuði. Sú niðurstaða fékkst ekki nema með því að við, hv. alþingismenn, hefðum tekið upphaflegar tillögur sem fjármálaráðherra kom með inn í þingið og gjörbreytt þeim.

Herra forseti. Væri hægt að loka kannski þarna fram meðan þessi umræða fer fram? (Forseti hringir.)

Það þurfti að gera mjög veigamiklar breytingar á þeirri niðurstöðu sem hæstv. fjármálaráðherrann kom með inn í þingið. Þær breytingar voru þess eðlis að það var tryggt að ekki væri gengið svo fram gagnvart hagsmunum Íslendinga á hverju ári í greiðslum til Breta og Hollendinga að við Íslendingar gætum ekki staðið undir þeim. Það voru sett sérstök skilyrði sem við gerðum líka kröfu um að Hollendingar og Bretar gengjust undir og lýstu yfir að þeir væru sáttir við til þess að ríkisábyrgðin tæki gildi.

Málflutningur ríkisstjórnarinnar í þessu máli hefur verið með endemum. Ítrekað, aftur og aftur, hefur verið sagt að ef ekki yrði gengið frá því frumvarpi sem hefur verið lagt fram, þ.e. Icesave-frumvarpinu, mundi hér allt stöðvast; það yrði t.d. ekki hægt að endurreisa bankakerfið fyrr en Icesave-samningarnir yrðu frágengnir. Það var fullyrt úr þessum ræðustól aftur og aftur. Gott og vel, margir hv. þingmenn trúðu því og auðvitað var staðan mjög alvarleg, og er alvarleg, í íslensku þjóðarbúi og menn taka það auðvitað mjög alvarlega þegar hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. forsætisráðherra og aðrir hæstv. ráðherrar fullyrða úr þessum ræðustól, ítrekað, að ef ekki verði gengið að þeim kröfum sem settar eru fram af hálfu Breta og Hollendinga, ef ekki verði samþykkt og gert að lögum það frumvarp sem þá lá fyrir, muni endurreisn íslenska bankakerfisins ekki takast, hún verði ómöguleg. Síðan kemur á daginn, herra forseti, að þetta er rangt. Það er búið að koma málum fyrir hvað varðar Íslandsbanka. Það er greinilegt að styttist mjög í að kröfuhafar sem snúa að Kaupþingi banka, núna Arion banka, muni lýsa því yfir hvort þeir hyggist yfirtaka bankann eða það sem eftir af honum er. Allt gerist þetta án þess að búið sé að ganga frá nokkru Icesave-samkomulagi.

Herra forseti. Það er ástæða til að hugleiða þetta og draga lærdóm af þessu þegar hæstv. ráðherrar koma hér og lýsa því yfir hvaða hryllilegu afleiðingar bíði okkar ef við samþykkjum ekki það frumvarp sem liggur fyrir okkur. Á sama hátt var fullyrt aftur og aftur að ekki væri hægt að grípa til neinna aðgerða varðandi fjármál heimilanna nema búið væri að ganga frá Icesave-frumvarpinu. Aftur og aftur var það fullyrt úr þessum ræðustól af hæstv. ráðherrum og mörgum hv. þingmönnum.

Nú liggur fyrir að það er þó í það minnsta búið að stíga skref, sem við þingmenn tókum hér saman, sem snýr að greiðsluaðlögun fyrir heimilin. Það var hægt að gera, herra forseti, án þess að búið væri að ganga frá Icesave-samkomulaginu.

Þeir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar sem töluðu svo digurbarkalega um að ekki væri hægt að gera neitt af þessu nema búið væri að ganga endanlega frá Icesave-samkomulaginu hljóta nú að hugsa sinn gang.

Jafnframt hljóta íslenskir ráðamenn, forustumenn þjóðarinnar, að velta fyrir sér framgöngu sinni í þessu máli og hvernig okkur hefur tekist til að standa í samningagerð við þessar þjóðir, Breta og Hollendinga, og eins hvernig okkur hefur tekist að halda á okkar málum gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndunum. Ítrekað var hæstv. forsætisráðherra spurður að því hér í þinginu hvernig stæði á því að ekki hefði með formlegum hætti verið kallað eftir svari frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um það hvernig á því stæði að verið væri að tengja saman Icesave-málið og efnahagsaðstoðina sem átti að vera hér í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og um var samið. Það kom aldrei neitt svar við því. Þeir hafa bara alltaf gefið sér að það væri niðurstaðan.

Síðan gerist það að leikstjóri sendir Alþjóðagjaldeyrissjóðnum bréf og spyr að þessu. Þá kemur það fram hjá Dominique Strauss-Kahn að það sé skoðun hans, svo og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að engin slík tenging finnist. Gott og vel, í kjölfarið — eftir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var búinn að fara í gegnum mál Íslands sem átti reyndar, eftir því sem íslenskir ráðamenn sögðu, aldrei að gera nema búið væri að ganga frá Icesave-samkomulaginu, endurskoðunin væri aldrei möguleg nema það frumvarp sem hér er væri orðið að lögum eða jafngildi þess — komu Norðurlandamennirnir, t.d. Noregur, og lýstu því yfir að lánin væru tilbúin fyrir okkur Íslendinga vegna þess að það hafi gengið fram sem reiknað var með í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þetta hefur gerst, herra forseti, án þess að Icesave-samningarnir hafi verið samþykktir, án þess að það frumvarp sem hér liggur fyrir sé orðið að lögum og veit enginn svo sem hvort það verður að lögum yfir höfuð.

Enn og aftur, um þetta hljóta íslenskir ráðamenn að brjóta heilann. Allar þessar miklu yfirlýsingar, allur þessi ómöguleiki sem var í stöðunni, allir þessir stórkostlegu erfiðleikar sem áttu yfir okkur að ganga, öll þessi óáran sem átti yfir okkur að ganga, þar standa menn allt í einu frammi fyrir því að hlutirnir hafi gengið fram með allt öðrum hætti. (Fjmrh.: Heldurðu að ekkert hafi verið haft fyrir því?)

Hér spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort ég haldi ekki að eitthvað hafi verið haft fyrir því. Jú, herra forseti, ég er viss um að það hefur verið haft fyrir því. Ég er alveg klár á því að það kostar heilmikil átök að fást við Breta og Hollendinga. Mér dettur ekki í hug, herra forseti, að það hafi gerst sisona af sjálfu sér, en það er bara mergurinn málsins. Um það snýst það. Þess vegna spurðum við hæstv. forsætisráðherra hvort ekki stæði til að senda t.d. Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þótt ekki væri nema eitt bréf til að spyrjast fyrir um það hvernig stæði á því að þessi staða væri uppi þannig að það kæmi með formlegum hætti frá íslenskum stjórnvöldum að við værum ekki sátt við að svona væri komið fram við okkur hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að ég held að það styrki ekki stöðu hæstv. forsætisráðherra meðal þjóðarinnar að leikstjóri einn taki upp hjá sjálfum sér að senda slíkt bréf, sem auðvitað hefði átt að vera sent af íslenska hæstv. forsætisráðherranum. Og ekki voru send nein slík bréf til forustumanna norrænu vinaþjóðanna sem við kunnum miklar þakkir fyrir að hafa fallist á að veita okkur lán þegar á þurfti að halda. Fyrir það ber að þakka mjög, en í ljósi þessarar löngu vináttu, í ljósi áratuga náinnar samvinnu og mikillar vináttu og bræðralags, er auðvitað engin goðgá að forsætisráðherra Íslands sendi starfsbræðrum sínum bréf og fari í fullri kurteisi og fullri vinsemd fram á útskýringu á því hvernig stendur á því að þessi ríki, þessi miklu vinaríki okkar, væru að gera kröfu um að við Íslendingar beygðum okkur undir vilja Breta og Hollendinga í þessu máli sem er okkur óskaplega erfitt. Það er verið að tala um svo gríðarlegar upphæðir, jafnvel sjálfan grundvöll efnahagslegs sjálfstæðis þjóðarinnar. Menn hafa, herra forseti, sent bréf af minna tilefni. Menn hafa spurt af minna tilefni.

Enn og aftur hlýtur það að vera umhugsunarefni þegar menn sjá að margt af því sem menn töldu ógerlegt og útilokað að mundi gerast ef ekki væri búið að samþykkja Icesave-samkomulagið hefur þó gerst.

Ég er einn þeirra sem telja að það eigi að finna pólitíska lausn á þessu máli, tel það nauðsynlegt. Það er það sem við sjálfstæðismenn höfum alltaf sagt, það á að reyna að finna pólitíska lausn á þessum málum. Það þýddi ekki, herra forseti, að það ætti að sætta sig við hvaða þá niðurstöðu sem framkvæmdarvaldið kæmi með til Alþingis. Það verður að segjast eins og er — (Utanrrh.: Hvað með þá sem þið sættust á?) og hér er kallað fram í aftur, herra forseti: Hvað með þá sem við sættumst á? Nú er margsinnis búið að fara yfir það í þessum ræðustól, og það veit hæstv. utanríkisráðherra sem kallaði fram í og spurði: ,,Hvað með þá sem þið féllust á?“, í aðdraganda þessa máls hvernig nákvæmlega að verki var staðið. Allt er það til skráð þannig að þegar menn fara yfir þetta mál og gera það af einhverri sanngirni sjá menn auðvitað feril þess máls og hvað það var sem t.d. við sjálfstæðismenn lögðum upp með sem var það að farið yrði í samningaviðræður við þessi lönd og að það yrði gert á pólitískum forsendum. Hvers vegna? Vegna þess að við töldum og trúðum því, og trúum því enn, að það eigi að lenda þessu máli með pólitískum hætti. Það þýðir, herra forseti, að við eigum ekki að þurfa að bera allar þessar byrðar ein. Það er engin pólitísk lausn. Það er sú niðurstaða sem menn fá þegar þeir fara í dómsalinn og tapa málinu. Það er við slíkar aðstæður, þegar menn hafa tapað málinu og þegar það liggur fyrir að við höfum fengið okkar tækifæri til að lýsa skoðunum okkar fyrir dómara og hann hefur komist að þeirri niðurstöðu að Ísland hafi haft rangt fyrir sér og þess vegna þurfum við að bera allan kostnaðinn. Það heitir að tapa í dómsal. Það er ekki ásættanleg niðurstaða sem hér birtist í því frumvarpi til laga sem núna er til umræðu. Og hvers vegna er það? Vegna þeirra fyrirvara sem við þingmenn vorum sammála um og menn mærðu hér í salnum hver í kapp við annan vegna þess að hv. þingmenn sáu að þetta var nauðsynlegt. Það hefur margoft verið farið yfir það í þessum sal. Þetta skipti máli. Það var öryggisatriði fyrir okkur að það væru settir fyrirvarar sem tryggðu að greiðslur á ári væru ekki óbærilegar og að það væru takmörk á ábyrgðunum.

Hvað þýða þau takmörk? Þau þýða að þegar við ákveðum hvort við segjum já eða nei við svona máli vitum við hvaða upphæðir við erum að tala um, að það séu einhver takmörk á þeim upphæðum sem um er að ræða. Það er vandinn við það sem hér er lagt til, að sú staða getur komið upp að við skrifum hér raunverulega upp á útgjöld sem við vitum ekki hversu mikil verða. Það er auðvitað nokkuð sem er allt að því óbærilegt fyrir hv. alþingismenn og hæstv. ráðherra að gera.

Hvernig getur sú staða myndast? Jú, það getur nefnilega alveg gerst á Íslandi eins og hefur gerst víða að það komi langur tími með litlum hagvexti. Það er nærtækt dæmi frá Japan. Og hvernig var það? Japanska efnahagskerfið var í meira en áratug fast í allt að engum hagvexti. Hvers vegna? Af því að það hafði einmitt verið alveg gríðarleg eignabóla í japanska hagkerfinu og þar höfðu átt sér stað atburðir sem að hluta til eru ekki ósvipaðir því sem hér hefur gerst, sem gerðu það að verkum að japanska hagkerfið sat lengi uppi með ónýtt bankakerfi og of miklar skuldir og sat þar af leiðandi fast í hagvaxtargildru. Slíkt, herra forseti, getur gerst á Íslandi. Þess vegna voru sett skilyrði í lögin í ágúst til að tryggja okkur Íslendinga gegn þessu. Það er það sem við vorum að gera. Þess vegna er óaðgengilegt fyrir þá sem hafa sagt að það eigi að finna pólitíska lausn á málinu að sætta sig við að þannig verði haldið á málum að sú trygging fari í burtu. Úr því að við vorum sammála um það í þessum þingsal í ágúst að nauðsynlegt væri að hafa slíka fyrirvara, að við gætum ekki farið áfram án þess að hafa þessa tryggingu, hljótum við að vera áfram sammála um það. Annað er útilokað.

Því miður eru ýmis hættumerki uppi í íslenska hagkerfinu sem gefa til kynna að hér geti komið langur tími með litlum hagvexti. Af hverju segi ég þetta, herra forseti? Jú, vegna þess að það skiptir öllu máli í kjölfar kreppu hvernig ríkisstjórn bregst við þeim vanda sem upp er kominn. Um þetta eru til mörg dæmi, kannski það frægasta og nærtækasta er það sem gerðist í Bandaríkjunum eftir hrunið 1929. Hvað gerðist þá? Bandarísk stjórnvöld gripu til rangra aðgerða í kjölfar kreppunnar sem gerði það að verkum að bandarískt hagkerfi dróst enn meira saman en ella hefði orðið vegna kreppunnar.

Það sama er því miður, herra forseti, að gerast hér á Íslandi. Hér hefur orðið mikill samdráttur vegna þess að hér var hrun á hlutabréfamarkaði og bankarnir hrundu. Hér mun verða samdráttur vegna þess að við þurfum að draga saman í ríkisútgjöldum. Hér eru mjög háir vextir sem gera atvinnulífinu enn erfiðara fyrir. Og ofan í þessar aðstæður hefur ríkisstjórnin enga aðra lausn á vanda ríkissjóðs en þá að hækka skattana. Sú aðgerð mun óumflýjanlega valda enn meiri samdrætti.

Þegar samdrátturinn eykst mun það líka valda ríkissjóði vanda vegna þess að tekjustofnar ríkissjóðs munu dragast saman í kjölfarið sem gerir það að verkum að þegar menn koma til þess að búa til fjárlög fyrir árið 2011 munu þeir sennilega standa frammi fyrir enn meiri vanda en þeir standa frammi fyrir núna við gerð fjárlaganna. Er sá vandi þó ærinn. Ég óttast, frú forseti, að þá muni menn grípa til sömu aðgerðanna. Úr því að menn trúa því við þessar aðstæður að hægt sé að hækka skatta til þess að bjarga sér í gegnum þennan vanda, það sé hægt skattleggja sig í gegnum kreppuna og vandann, óttast ég að þeir trúi því líka á næsta ári. Ég tel allar líkur á því. Þannig mun vandinn halda áfram að aukast, tekjustofnarnir að rýrna.

Það er akkúrat þetta sem getur orðið okkur svo hættulegt ef við ætlum síðan þar ofan á að taka þá risastóru áhættu að segja: Við ætlum að hafa þetta opinn tékka, þ.e. við ætlum alltaf að borga þær vaxtagreiðslur sem falla til. Það þýðir að sama hvernig árar á Íslandi, þó að það sé samdráttur í hagkerfinu, alveg gríðarlegur samdráttur, eigum við samt að borga þennan bretaskatt. Það er það sem fyrirvarinn frá því í ágúst sneri að. Þótt ekki væri nema bara það eitt gerir það það að verkum að ekki er hægt að nálgast þetta frumvarp þannig að menn geti samþykkt það óbreytt. Við hljótum að kalla eftir því að þetta breytist og í það fyrra far sem málið var í þegar gengið var frá því í ágúst sl.

En það eru fleiri atriði sem er áhugavert að velta fyrir sér. Í 2. gr. frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Ekkert í lögum þessum felur í sér viðurkenningu á því að íslenska ríkinu hafi borið skylda til að ábyrgjast greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi.“

Úr því að þetta er sagt, úr því að þetta er afstaða íslenskra stjórnvalda, úr því að við fullyrðum í frumvarpinu að okkur beri ekki þessi skylda hljótum við um leið að kalla eftir því að við séum ekki ein að bera þetta allt saman. Úr því að við sjálf trúum því í hjarta okkar og erum sannfærð um að okkur beri ekki skylda til að gera það, hvers vegna í ósköpunum eigum við þá að fallast á það núna að bera alla ábyrgðina? Í lögunum sem við samþykktum í ágúst var gert ráð fyrir því að ábyrgðin næði einungis til ákveðins tíma, fram til 5. júní árið 2024. Á því sem út af stæði, ef út af stæði, yrði þannig ekki ríkisábyrgð. Þetta er alveg lykilatriði. Með þessu vorum við Íslendingar að segja: Við ætlum að reyna að borga þetta allt saman, en ef aðstæður í okkar efnahagslífi verða okkur mótdrægar, eða ef innheimtur á eignum Landsbankans verða minni en við ætluðum berum við ekki alla áhættuna af því. Það var afstaða okkar Íslendinga.

Þegar þetta tvennt er tekið saman, að það sé hámark á því hvað við borgum á hverju ári, miðað við hagvöxt og að það sé hámark á því hversu mikla ábyrgð við ætlum okkur að bera annars vegar og hins vegar þau ströngu skilyrði sem okkur voru sett, og berum saman við það sem hér blasir við, við þetta frumvarp, sjá menn auðvitað muninn.

Það er sorglegt og óásættanlegt að hlusta á það aftur og aftur úr þessum ræðustól hjá hv. þingmönnum stjórnarliðsins og hæstv. ráðherrum, mörgum hverjum, að allir þessir fyrirvarar séu í þessu frumvarpi.

Frú forseti. Ég veit ekki hvern er verið að reyna að blekkja með því. Það fellur enginn fyrir þessu, það er ekki nokkur maður sem trúir þessu. Allir hv. þingmenn eru ágætlega læsir og menn sjá alveg hvað búið er að gera. Menn sjá að það er búið að taka þessa þætti í burtu. Þess vegna getum við ekki samþykkt þetta frumvarp í óbreyttri mynd.

Síðan er hitt, sé það skoðun Breta og Hollendinga að þessi ábyrgð sé svo klár og kvitt, það sé alveg klárt mál að við Íslendingar eigum að borga þetta af því að ríkisábyrgð hafi alltaf legið fyrir, hlýtur maður að spyrja sig — þótt ég viti ekki hversu mikið það hefur upp á sig gagnvart Bretum og Hollendingum, en það er rétt að við hv. þingmenn spyrjum okkur að því: Hvernig stendur á því að við erum að ræða hér frumvarp til laga um að veita slíka ríkisábyrgð? Ef þetta var svona sjálfsagt mál, ef þetta lá fyrir, ef Evrópurétturinn er svona klár og kvitt með þetta, hvers vegna þarf þá slíkt frumvarp? Hvers vegna þarf þá slík lög úr því að ekki er hægt að deila um þetta að mati Breta og Hollendinga? Hvernig stendur á því að menn þurfa að gera slíkt? Af hverju var það ekki bara alveg klárt þá í íslenskum rétti sem hluti af Evrópuréttinum, sem hluti af EES-regluverkinu?

Það sem kemur í ljós er auðvitað að það er ekkert slíkt, þetta er ekki jafnskýrt og menn hafa látið í veðri vaka og hér eru að verki aðrir kannski þyngri hagsmunir en bara lagatæknilegir, þ.e. það eru stórar þjóðir sem segja: Það er svo mikið undir að þið Íslendingar fallist á þetta að það skiptir ekki máli hvernig lög og réttur í þessu máli eru, þið skuluð gera það.

Mér er til efs, frú forseti, að stærri þjóðir og mannfleiri en við Íslendingar séu nokkurn tímann látnar sæta þessum afarkostum eða þessari meðferð og framkomu sem við eigum að þola. Hér er ekki um að ræða ábyrgð, rétt eins og kemur fram í 2. gr. laganna, og við viðurkennum hana ekki. Við segjum það alveg skýrt og skilmerkilega að við viðurkennum ekki þessa ábyrgð. Hún er ekki okkar.

Þess vegna verður þetta mál allt svo sárgrætilegt og eftir því sem tíminn líður undarlegra og undarlegra.

Jafnframt er rétt að hafa í huga, og þessu ætti t.d. hæstv. utanríkisráðherra að velta fyrir sér sem er mikill áhugamaður um Evrópumál og Evrópusamvinnu — (Utanrrh.: Og Róm.) Og Róm. Og ábyggilega flestar aðrar Evrópuborgir ef út í það er farið. Menn mættu, hæstv. ráðherrann og aðrir, velta fyrir sér hvernig það getur yfir höfuð gengið upp að það sé þannig fjármálakerfi í Evrópu og innstæðutryggingakerfi að undirliggjandi sé ábyrgð viðkomandi ríkissjóða. Hvað þýðir sú staðreynd ef rétt væri? Hún þýðir að bankar í stórum ríkjum, fjölmennum löndum með stóra ríkissjóði, hljóta eðli málsins samkvæmt að hafa mun sterkari samkeppnisstöðu vegna þeirra trygginga sem eru fólgnar í ríkissjóðum með baktryggingu ríkissjóðs á innstæðum þeirra, heldur en bankar í fámennum ríkjum, eins og t.d. Íslandi.

Því verður vart trúað, frú forseti, að menn leggi þann skilning í frjálsan markað, hinn opna markað Evrópu, í fjórfrelsið, frjálst flæði fjármagns, að það hafi alltaf þýtt að það væri þó takmarkað þannig að þeir sem kæmu frá stóru löndunum hefðu samkeppnisforskot á þá sem kæmu frá fámennari löndum. Augljóslega er það ekki svoleiðis. Það er mín spá, frú forseti, að það muni þróast þannig í Evrópu að menn muni þurfa að finna lausnir á þessu máli. Menn munu ekki búa áfram við þessa stöðu og ég held að mál Íslands verði notað sem skólabókardæmi um það hvers vegna þetta kerfi getur ekki gengið upp, hvers vegna það er einfaldlega stórgallað.

Það er bara ekki sanngjarnt og ekki réttlátt að við Íslendingar þurfum að bera allan hallann af því. Hér er um að ræða afleiðingar af regluverki EES og Evrópusambandsins. Það er grundvallaratriði í málinu.

Auðvitað velta menn fyrir sér hvaða kosti við Íslendingar eigum í stöðunni. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra, auðvitað hefur það ábyggilega kostað heilmikla vinnu að þoka málinu í þó þá stöðu sem það er í núna. Það verður þó að segjast að við hefðum mörg hver, hv. þingmenn, kosið að ríkisstjórnin væri eilítið hvassari, eilítið skarpari, eilítið harðari í málflutningi sínum gagnvart útlendingum sem hafa sótt að okkur, þ.e. Bretum og Hollendingum. Hún hefði mátt ganga fastar fram gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og af fullri kurteisi og vinsemd gagnvart vinum okkar Norðurlandaþjóðunum og spyrjast fyrir um það hvernig stæði á því að þessar þjóðir hefðu tekið afstöðu eins og þær gerðu. Þetta hefði verið æskilegt. Þá spyrja menn: Hvað ef við Íslendingar hefðum bara sagt: Heyrðu, svona er staðan, þetta eru lögin sem voru samþykkt hér í haust, nú verðið þið bara að taka þessu, Bretar og Hollendingar.

Þá er rétt að hugleiða það, frú forseti, að í þeim texta sem hér er í athugasemdum við lagafrumvarpið er áhugaverður kafli sem er rétt að hafa í huga þegar menn velta fyrir sér hver viðbrögð Hollendinga og Breta geti orðið í þessum málum. Hér stendur, með leyfi frú forseta:

„Um þetta leyti var Evrópusambandinu falið, af hálfu viðsemjenda Íslands, að gerast milligönguaðili í málinu. Á þessu stigi málsins var lögð á það áhersla af hálfu íslenskra stjórnvalda að fá úr málinu skorið fyrir viðeigandi úrskurðaraðila eða dómstól en þessu var hafnað af viðsemjendunum.“

Og nú kemur það sem skiptir máli:

„Afstaða þeirra byggðist ekki síst á því að talið var varhugavert að gefa með einhverjum hætti til kynna að vafi kynni að leika á um það innlánstryggingakerfi sem lægi til grundvallar innlánastarfsemi í Evrópu þar sem ótvírætt gildi tilskipunarinnar væri forsenda þess að innstæðueigendur treystu bönkum fyrir sparifé sínu. Réttaróvissa kynni að valda ófyrirséðum afleiðingum í evrópsku bankakerfi.“

Þetta er alveg lykilatriði. Þetta rammar inn afstöðu Breta og Hollendinga í þessum málum. Á þeim tíma þar sem þetta mál á upphaf sitt, þ.e. þessi deila, riðaði evrópskt bankakerfi til falls og í sjálfu sér geta menn vel skilið hörkuna sem var í upphafi málsins af hálfu Breta og Hollendinga.

Nú hefur margt breyst akkúrat í fjármálageiranum og staða fjármálastofnana er mun betri núna og lífvænlegri en hún var fyrir ári. Þá er ekkert óeðlilegt að við Íslendingar vekjum aftur máls á því hvort þessi leið sé ekki fær. Við getum aldrei skikkað Breta eða Hollendinga til að fara í réttarsal, það vita menn, það er ekki hægt að þjóðarétti. En um leið er það þannig að Alþingi var búið að samþykkja lög hér í haust sem gerðu ráð fyrir því að Bretar og Hollendingar þyrftu vissulega að viðurkenna þá fyrirvara sem gerðir voru, að þeir þyrftu að láta vita af því að þeir sættu sig við þá og þar með mundi ríkisábyrgðin taka gildi. Lögin tóku gildi en ríkisábyrgðin sem lögin fjölluðu um tók ekki gildi nema það kæmi slík tilkynning frá Bretum og Hollendingum. Það liggur alveg jafnmikið fyrir núna og gerði þá að Bretar og Hollendingar vilja ekkert fara með þetta mál í neinn réttarsal, þeir vilja ekki fara þá leið af því að minnsta óvissa, eins og einmitt kemur fram í texta frumvarpsins, getur valdið alveg gríðarlegum skaða. Þó að bankakerfin séu orðin betur stödd vilja menn ekki rugga þeim bát um of. Þess vegna hljóta menn að velta fyrir sér orðum Dominiques Strauss-Kahns þegar hann svaraði bréfinu sem ágætur leikstjóri sendi honum. Hjá Dominique Strauss-Kahn kom fram að afstaða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins væri sú að ekki væri tenging á milli afgreiðslu sjóðsins og Icesave-málsins. Hann tók það skýrt fram. Þess vegna var ráðist í endurskoðun án þess að Icesave-frumvarpið væri samþykkt.

Norðmenn lýstu því yfir enn og aftur að lán frá þeim væru til greiðslu án þess að Icesave-frumvarpið væri orðið að lögum. Þegar menn leggja þetta allt saman, hvað hefur gerst í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, hvað hefur verið að gerast annars staðar á Norðurlöndunum og það að Bretar og Hollendingar munu ekki vilja fara dómstólaleiðina, hljóta menn að spyrja sig að því hvort íslensk stjórnvöld hefðu átt möguleika á því að halda fastar á okkar málum en virðist koma fram í þessum plöggum, í greinargerð með þessu og í opinberri umræðu gagnvart Bretum og Hollendingum í kjölfar ágústlaganna. Ef meiri hörku hefði verið beitt af hálfu Íslendinga við þær aðstæður og ríkisstjórnin hefði bent þessum þjóðum á að þetta væru lög frá Alþingi og í raun og veru væri ekkert um að semja hlýt ég að velta fyrir mér, eins og margir aðrir hv. þingmenn, hvernig því hefði reitt af.

Hagsmunir Breta og Hollendinga eru þeir að ljúka málinu. Það sem skiptir máli hjá þeim er ekki bara upphæðin heldur ákveðið prinsipp, það að lenda ekki í því að vafi sé um innstæðutryggingakerfið. Þegar menn horfa á þessar upphæðir sem eru svo stórar fyrir okkur eru þær ekki háar fyrir þessar stóru og miklu þjóðir, en það er annað mikilvægara undir. Þess vegna á að vera möguleiki á pólitískri lausn, á lausn sem er þannig að Íslendingar og Bretar og Hollendingar geti búið við hana. Það er mjög auðvelt fyrir Breta og Hollendinga að búa við þá lausn sem birtist í þessu frumvarpi hér, það er ekki mikið vandamál, ég vorkenni þeim það ekki mikið. Fyrir okkur Íslendinga er þetta ekki lausn sem við getum sætt okkur við, það má vera algjörlega augljóst mál. Þetta frumvarp er búið að gefa frá okkur þann mikilvæga fyrirvara að heildargreiðslurnar séu lágar þegar illa gengur og þegar allt gengur okkur í mót jafnvel engar. Það er líka búið að gefa það frá okkur að það sé takmarkað í hversu langan tíma við eigum að borga þetta.

Samkvæmt því sem hér er getur þetta teygst áfram alveg endalaust og að við samþykkjum, verði þetta að lögum, útgjöld úr ríkissjóði sem við vitum ekkert hver verða þegar upp verður staðið. Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir hv. þingmenn, enda hefur komið fram hjá virtum fræðimönnum á sínu sviði, ágætum lögspekingum, að færa má fyrir því rök að menn geti haft efasemdir um að það standist að afgreiða þetta mál eins og það er búið hér til þingsins.

Ég ætla ekki að gerast dómari í því, en það hlýtur þó að vera augljóst að það er umræðunnar virði og rétt að hugleiða mjög gaumgæfilega hvort það bara yfir höfuð gangi upp að skrifa jafnopinn tékka og hér er ætlast til, samþykkja fjárskuldbindingu sem getur í raun og veru varað áratugum saman ef illa gengur. Reyndar hef ég heyrt hv. þingmenn segja hér í þingsalnum: Þið megið ekki vera svona svartsýn, af hverju eruð þið svona svartsýn, af hverju haldið þið að allt muni ganga svona illa? Auðvitað vonum við og trúum að það muni ganga vel á Íslandi, auðvitað vonar maður og trúir að ríkisstjórnin skipti um stefnu í skattamálum og breyti efnahagsstefnu sinni. Auðvitað vonar maður og trúir, annaðhvort væri það nú, en það að gefa frá sér öryggisventilinn, það að gefa frá sér varnaglann, það að segja: Við ætlum bara að taka áhættuna af þessu, getum við ekki gert. Við vorum sammála um það, hv. þingmenn, hér í haust að það væri nokkuð sem við gætum ekki gert.

Hvað hefur breyst? Er það það að við teljum okkur vera í erfiðari stöðu gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum núna en þá? Nei, það er alveg augljóslega ekki. Er það það að við teljum okkur vera í erfiðari stöðu gagnvart Norðurlöndunum núna og lánveitingum þeirra en í haust? Nei, frú forseti, alveg augljóslega ekki. Hvernig stendur þá á því að við erum komin vel á veg með það að endurreisa bankakerfið, að fyrstu skrefin hafa verið stigin í þá átt að leysa skuldavanda heimilanna, í það minnsta að fresta honum eða slá honum á frest, sem allt var talið ómögulegt, úr því að við erum ekki búin að klára Icesave-samkomulagið? Úr því að þessir þættir hafa þróast með þessum hætti, hvers vegna ætlum við þá, úr því að staða okkar og samningsstaða er orðin betri en áður, að segja: Við Íslendingar ætlum að gefa frá okkur þessa fyrirvara? Hvers vegna ætlum við að gera það? Hvers vegna í ósköpunum ættum við hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar að gera það?

Hví skyldum við ekki, frú forseti, endurtaka leikinn frá því í haust, setja sömu fyrirvara og segja: Alþingi Íslendinga talaði skýrt í ágúst og mun tala aftur skýrt í þessum málum? Við ætlum okkur að fá pólitíska lausn, við ætlum að fá lausn sem er þannig að við Íslendingar berum ekki alla áhættuna í málinu og við ætlum okkur að fá lausn sem er þannig að ekki verði stefnt í voða efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar. Við viljum auðvitað fá lausn, frú forseti, sem gerir það að verkum að við getum staðið bein í baki því að þetta er lausn sem fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur réttilega bent á að við nálgumst ranglega. Hún segir að við nálgumst samningaferlið eins og hverjir aðrir sakamenn, að við berum öll þessa ábyrgð. Það er bara ekki þannig. Við Íslendingar berum ekki alla þessa ábyrgð og þess vegna eigum við ekki að þurfa að sitja undir þessum afarkostum. Þetta er vandi sem á rætur sínar að rekja að stórum hluta til regluverks Evrópska efnahagssvæðisins sem við höfum innleitt. Það er augljóst í mínum huga að sú nálgun sem ríkisstjórnin býður upp á er, rétt eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, sagði og benti á, ekki við hæfi fyrir okkur Íslendinga svo maður taki efnislega saman sem hún sagði.

Frú forseti. Ég hef í þessari ræðu minni farið yfir þau helstu atriði sem ég tel að skipti máli fyrir okkur Íslendinga hvað varðar þetta frumvarp. Það er von mín að þegar málið fer aftur til nefndar muni hv. fjárlaganefnd fara vel í gegnum sjónarmið frá Sigurði Líndal og fleirum sem snúa að stjórnarskrárþættinum. Það skiptir verulega miklu máli að það sé búið að fara vel í gegnum þann þáttinn þannig að þegar kemur að því að við greiðum síðan atkvæði um þetta mál, segjum já eða nei við þessu frumvarpi, liggi fyrir með vönduðum hætti að við séum þá ekki að fara að brjóta hér stjórnarskrá. Það skiptir miklu máli.

Jafnframt segi ég að lokum það, frú forseti, að nú er auðvitað liðið langt á kvöld og vonandi fer umræðu að ljúka því að ég er þeirrar skoðunar, að það sé engan veginn (Forseti hringir.) við hæfi að við ræðum þetta mál hér (Forseti hringir.) langt inn í nóttina.