138. löggjafarþing — 32. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:57]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum þetta alræmda Icesave-mál. Það sem mig langar til að fjalla aðeins um er jafnræðisregla samningsins um Evrópska efnahagssvæðið í samhengi við þetta mál.

Það liggur fyrir að stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi lána eigin tryggingarsjóðum fé á mun hagstæðari kjörum en þeir lána íslenska ríkinu til að greiða innstæðueigendum Icesave-reikningana. Þetta telur Daniel Gros, forstjóri Centre for European Policy Studies, brjóta í bága við jafnræðisreglu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Gros bendir í viðtali við Morgunblaðið á að Bretar og Hollendingar hafi skírskotað til jafnræðisreglunnar þegar þeir sögðu Íslendinga bera ábyrgð á innstæðum íslenskra banka erlendis.

Hæstv. utanríkisráðherra, má ég ekki bjóða þér hérna inn?

Sama jafnræðisregla hljóti því að gilda um kjör á lánum til að gera upp við eigendur þessara innstæðna. Fengi íslenska ríkið bresku lánin á sömu kjörum og breski tryggingarsjóðurinn mundi það spara Íslendingum vaxtagreiðslur sem næmi um milljarði evra sem er á gengi dagsins í dag tæpir 200 milljarðar króna.

Íslenskir stjórnmálamenn hafa frekar haft áhuga á því að slá pólitískar keilur í Icesave-málinu heima fyrir en að gæta hagsmuna Íslendinga á erlendum vettvangi. Þetta segir Eiríkur Bergmann, forstöðumaður Evrópufræðasetursins á Bifröst. Hann bendir á að eðli EES-samstarfsins sé þannig að Íslendingar hefðu átt að fá sambærileg lánakjör á Icesave og þau sem Bretar og Hollendingar fá á fjármögnun sinni. Með leyfi forseta, segir Eiríkur Bergmann:

„Mér virðist eins og að Íslendingar hafi sjálfir eiginlega sett sig í þá stöðu að vera meðhöndlaðir eins og um utanaðkomandi aðila væri að ræða, eins og þetta væri sko einkabanki á markaði, að íslenska ríkið. Þannig að við létum svolítið spila okkur út í horn í þessu máli.“

Þetta er rétt hjá Eiríki og þetta er algjörlega í samræmi við það sem fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur haldið fram. Mistök stjórnvalda voru að halda að einkaréttarsamningur þar sem samið er á viðskiptaforsendum gæfi betri niðurstöðu en pólitísk sátt milli þjóðríkja. Þessi einkaréttarsamningur var af samningamönnum kallaður með nokkru stolti landsbankaleiðin. (PHB: Algjör snilld.) Algjör snilld, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal segir úti í sal. En um þetta atriði segir Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, í viðtali á Bylgjunni 23. nóvember sl, með leyfi forseta, að erfitt „sé að átta sig á hvaða jafnræðisreglu [Daniel Gros er] að vísa til. Ekki sé til nein allsherjarjafnræðisregla en þær reglur sem gildi innan EES séu fyrst og fremst varðandi samkeppnisstöðu“.

Eiríkur Bergmann segir um þessi ummæli, með leyfi forseta:

„Já, þetta er nú svona klassísk afstaða margra íslenskra embættismanna og stjórnmálamanna til Evrópusamstarfs að halda að það sé fyrst og fremst lagatæknilegt úrvinnsluefni þegar það er það auðvitað alls ekki. Evrópusamstarf er fyrst og fremst pólitískt samstarf.“

Eiríkur Bergmann hélt síðan áfram á Bylgjunni, með leyfi forseta:

„Og satt að segja þá hefur mér fundist íslenskir stjórnmálamenn frekar haft áhuga fyrir því að slá pólitískar keilur í þessu máli heima fyrir heldur en að gæta hagsmuna Íslendinga á erlendum vettvangi.“

Eins og ég sagði áðan, svo mörg voru þau orð.

Indriði Þorláksson hefur vísað til þess að menn skilji ekki muninn á föstum og breytilegum vöxtum. Nú eru sex ár þar til greiða þarf fyrstu Icesave-greiðsluna. Því lægri sem vaxtabyrðin er í upphafi, því lægri verður upphæðin sem þarf að greiða eðli málsins samkvæmt. Því meira og því fyrr sem greitt er inn af eignum Landsbankans heitins, því minni verður einnig vaxtastabbinn. Nú lítur út fyrir að vextir verði lágir um nokkurt skeið erlendis, jafnvel nokkur ár. Það er því til mikils að vinna að stuðst verði við breytilega vexti þrátt fyrir að vextir verði hugsanlega komnir upp fyrir 5,55% að sex árum liðnum. Þetta ætti pólitískur ráðgjafi fjármálaráðherra að vita.

Á þriðjudag átti ég orðastað við fjármálaráðherra þar sem fjallað var um þá áhættu ríkisins sem er af föstum og breytilegum vöxtum varðandi Icesave-samningana. Þar sagði ráðherra, með leyfi forseta:

„Varðandi vexti verða menn að horfa á muninn á því að festa lán til langs tíma á föstum vöxtum öryggisins vegna. Það var mat þeirra fagaðila sem leitað var ráðgjafar hjá að þetta væri skynsamlegt m.a. vegna þess að ríkið tekur önnur lán til skemmri tíma á breytilegum vöxtum. Með því er áhættunni dreift. Var talið að þetta kæmi einfaldlega betur út og væri í heildarsamhengi mála skynsamleg ráðstöfun af hálfu ríkisins og því varð niðurstaðan þessi.“

Svo mörg voru þau orð.

Það vill svoleiðis til að 1999–2000 vann ég með fjölmörgum öðrum aðilum fyrir Evrópusambandið að úttekt á innlánstryggingarkerfi Evrópu sem síðan kom út í skýrslu sem m.a. var tilvísun til frægra ummæla núverandi seðlabankastjóra Evrópu. Þar kom skýrt fram að ef tryggingarsjóðir ólíkra landa búa við mismunandi kjör getur það skert samkeppnisaðstæður. Hugsið ykkur t.d. tryggingarsjóði í einu landi sem býr við ríkisábyrgð og miðið hann við tryggingarsjóð í öðru landi sem býr ekki við ríkisábyrgð, og hugsið ykkur síðan hvor aðilinn stendur betur í samkeppni.

Ég hef með hjálp sérfræðinga í skuldastýringu farið aðeins yfir þetta mál með fasta og breytilega vexti. Það liggur fyrir að efnahagsástand í Evrópu og reyndar heiminum öllum er bágborið um þessar mundir. Vextir eru í sögulegu lágmarki og það er líklegt að svo verði um sinn. Fastir vextir sem munu safnast upp á Icesave-skuldbindingunni fram til 2016 miðað við 90% innheimtur á eignum Landsbankans munu nema um 209 milljörðum kr. Ef við hins vegar notumst við breytilega vexti og gefum okkur dæmi þar sem vextir byrja í 1% — stýrivextir seðlabanka erlendis eru í kringum 0% — og ef við gefum okkur 100 punkta ofan á það er 1% síst of mikið. Gerum ráð fyrir að þeir hækki um 1 prósentustig á ári, fari í 1, 2, 3, 4, 5, 6 og upp í 7%. Hver skyldi vaxtabyrðin vera þá miðað við breytilega vexti? Jú, 116 milljarðar kr. Það munar 93,5 milljörðum kr. Það munar um minna.

Þessa útreikninga hef ég gert í samvinnu við sérfræðinga í skuldastýringu, sérfræðinga sem hafa vit á því sem þeir eru að gera. Það væri gaman að sjá þá ráðgjöf sem samninganefndin fékk í þessu máli. Svo mörg voru þau orð.

Viltu að ég fái pásu og haldi áfram á morgun? Á ég að halda áfram? (ÖJ: Þetta er svo skemmtileg ræða.) Þakka þér fyrir, hv. þm. Ögmundur Jónasson. (Gripið fram í: Taktu … líka.)

Það sem var gert með breytingunum sem við samþykktum hér í haust var að efnahagslegu fyrirvararnir hafa verið rústaðir. Til að forðast þá áhættu sem er falin í að hugsanlega gæti gengið illa á Íslandi í efnahagslífinu í framtíðinni, eða á næstu árum, var sett þak á fyrirvarana. Þetta þak kvað á um að við mundum aldrei borga meira en 6% af landsframleiðslu í þessa samninga. Þessu hefur verið breytt á tvennan hátt í meginatriðum, í fyrsta lagi þannig að við munum alltaf borga vextina og í öðru lagi þannig að ríkisábyrgðin sem var takmörkuð við 2024 hefur verið framlengd út í hið óendanlega. Vaxtagreiðslur verða alltaf inntar af hendi. Þetta skapar mikla áhættu fyrir okkur í framtíðinni.

Við Íslendingar höfum sýnt vel hversu góð við erum í að meta áhættu. Afleiðingarnar af því áhættumati sáum við í hruninu seinasta haust. Við skulum ekki falla aftur í sömu gryfjuna. Við skulum slá varnagla núna. Þessi varnagli var sleginn í ríkisábyrgðina sem samþykkt var hér í haust, en hann hefur verið tættur í sundur eins og ég sagði áðan. Það stendur ekki steinn yfir steini og svo leyfa stjórnarliðar sér, hæstv. ráðherrar, að halda því fram að þetta breyti sáralitu eða engu, efnahagslegu fyrirvararnir séu tryggðir.

Annað atriði sem hefur komið í ljós er að gengisfesting krafna innstæðusjóðsins er í íslenskum krónum, eða réttara sagt eru kröfurnar festar í íslenskum krónum. Hv. þm. Pétur Blöndal hefur verið ötull við að benda á hversu mikil hætta geti falist í þessu. Það er algjörlega litið fram hjá þessu og ekkert tillit tekið til þess. Eignir þrotabús Landsbankans hafa þrátt fyrir að hér hafi komið hæstv. ráðherra eftir hæstv. ráðherra og lýst því yfir að eignir þrotabúsins séu að aukast að verðmæti herma nýjar fréttir að eignirnar hafi rýrnað frá því í sumar og nemi nú 1.164 milljörðum króna. Endurheimtuhlutfall vegna forgangskrafna í þrotabú bankans verður því u.þ.b. 88% miðað við það magn. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Eins og hv. þingmaður hafði getið sér til um hugðist forseti senn ljúka þessari umræðu í dag og spyr hv. þingmann hvort hann eigi langt eftir í ræðu sinni, hvort hann telji sig geta klárað hana á næstu fimm mínútum. Ef ekki, er hann tilbúinn til að fresta henni til morguns?)

Virðulegi forseti. Ef ég má segja nokkrar setningar í viðbót mundi ég fresta henni fram á morgun þannig að áhorfendur geti fengið framhaldssögu.

(Forseti (ÁRJ): Það er velkomið.)

Helsta ástæða eignarýrnunar þrotabúsins er að sögn skilanefndar bankans gengisstyrking krónunnar frá miðju sumri. Um 3/4 eigna bankans eru í erlendri mynt og því orsakar gengisstyrking krónunnar minni endurheimtur upp í skuldbindingarnar.

Ætli sé ekki bara rétt að ég láti staðar numið hér og haldi áfram á morgun. Þakka þeim sem hlýddu.