Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 27. nóvember 2009, kl. 12:01:39 (0)


138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:01]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki viss um að ég sé sammála hv. þingmanni um að ekki eigi að halda áfram að slíta sundur ræður aðeins eins og gert var núna. Það er satt að segja alveg ágætis tilfinning að sofna við ræðu hans á kvöldin og vakna aftur við hana á morgnana. (TÞH: Þakka þér fyrir.)

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sem var bæði hófstillt og prýðilega málefnaleg í flestum efnum. Ég gæti svo sem spurt út af lokaorðum hans: Stóð þá Sjálfstæðisflokkurinn ekki í lappirnar þegar hann lagði í þennan leiðangur? Stóð núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins ekki í lappirnar þegar hann sannfærði þingið um að það væri best að fara samningaleiðina? Hv. þingmaður þarf þó ekki að svara mér um það.

Mér finnast vangaveltur hv. þingmanns um vextina, fasta eða breytilega, vera athyglisverðar. Menn veltu þessu upp á sínum tíma. Ég tek það skýrt fram og segi kinnroðalaust sjálfs mín vegna að hv. þingmaður er mér miklu fremri í öllu því sem lýtur að hinum döpru vísindum, hagfræðinni. Ég ætla því í sjálfu sér ekki að deila við hann en ég tók eftir þeim upplýsingum sem hann setti fram áðan. Hann talaði um að ef menn hefðu farið þá leið — ef ég hef skilið hann rétt — að nota breytilega vexti hefði byrðin orðið miklu léttari fyrstu árin og hann taldi tölurnar upp fram að árinu 2015. Gleymir hv. þingmaður ekki afganginum af þessari jöfnu og þessu reikningsdæmi? Hvað gerist eftir það? Hefur það ekki verið rauður þráður í máli margra hv. þingmanna, til að mynda hv. þingmanna Hreyfingarinnar, að við megum ekki gera neitt sem veldur því að það verði kynslóðir framtíðarinnar sem borgi þetta. Ég spyr sjálfan mig undir ræðu hv. þingmanns en ítreka að hugsanlega hef ég ekki skilið hann rétt — eins og hann lagði þetta fram fannst mér sem hann væri í reynd að segja að byrðarnar eftir 2015, þ.e. þær byrðar sem hugsanlegt er að nýjar kynslóðir sem eru að koma inn á vinnumarkaðinn muni bera, verði fyrir vikið töluvert mikið þyngri.