Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 27. nóvember 2009, kl. 12:36:54 (0)


138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:36]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram um að gerð verði grein fyrir því hvernig hátta á vinnubrögðum á næstu klukkutímum og dögum. Ég vil einnig taka undir þá hvatningu sem komið hefur fram frá stjórnarandstöðunni að þetta málefni, Icesave, verði sett í frí og sent til nefndar til betri undirbúnings. Icesave er ekki mál sem þetta þing á að vera að rífast um, virðulegi forseti, en það er ljóst að á þeim samningi sem liggur fyrir eru stórir gallar sem valda miklum ágreiningi í þinginu og samfélaginu. Það er mjög áríðandi að hæstv. ríkisstjórn beiti sér fyrir að ná miklu breiðari sátt um þetta mál.

Ég hvet því til þess að þetta mál verði tekið af dagskrá þingsins, sett í nefnd og að við náum um þetta breiðri sátt, förum að vinna saman á þeim meinbugum sem eru á þessu máli og komum fram sem ein heild í þessu máli til að ná ásættanlegri niðurstöðu. Á meðan setjum við þá á (Forseti hringir.) dagskrá þau mál sem brýnt er að ljúka við fjárlagagerð (Forseti hringir.) og aukafjárlög.