Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 27. nóvember 2009, kl. 12:38:25 (0)


138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:38]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Gæti ég fengið þögn í salnum til að halda ræðu mína?

(Forseti (ÞBack): Einn fund í salnum.)

Takk fyrir. Það eru nokkur atriði sem ég tel brýnt að koma inn á í þessari ræðu og mun gera það ef ég fæ frið fyrir frammíköllum til að komast áleiðis með ræðu mína.

Fyrst vil ég nefna að í þessari umræðu hefur stjórnarandstaðan nánast ein verið um hituna. Stjórnarandstaðan hefur haldið uppi málflutningi, komið fram með margvíslegar athugasemdir, rök sem sýna fram á að það frumvarp sem hér liggur fyrir er vont, hættulegt og í veigamiklum atriðum verra og frábrugðið því frumvarpi sem varð að lögum 28. ágúst. Þetta hefur verið gegnumgangandi þráður í ræðum fjölmargra þingmanna stjórnarandstöðunnar sem hér hafa talað. Komið hefur verið inn á mjög marga þætti en það hefur hins vegar skort í þessari umræðu að fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna hafi komið upp til að rökstyðja sína skoðun.

Ég verð að geta þess að hæstv. fjármálaráðherra hefur lengst af verið viðstaddur umræðuna og stöku sinnum komið upp í andsvör en um annað málefnalegt innlegg af hálfu stjórnarliða er það að segja að þar hefur lítið kjöt verið á beinunum annað en endurtekning á því sem stendur ýmist í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar eða greinargerð með frumvarpinu. Ég fór yfir það í fyrri ræðu minni á þriðjudaginn að hvaða leyti þetta meirihlutaálit úr fjárlaganefnd væri gallað en ég hef ekki enn fengið nein viðbrögð við því frá stjórnarliðum. Annaðhvort á ég að skilja þetta svo að þeir fallist einfaldlega á þau sjónarmið sem ég og aðrir stjórnarandstæðingar höfum haldið fram í þessu máli eða telji þau svo ómerkileg að þau séu ekki svara verð. Ég verð að vera í óvissu um hvor skilningurinn er réttur en þó væri fengur að því ef hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn stjórnarflokkanna létu svo lítið að koma upp í ræðustól til að rökstyðja mál sitt.

Í 2. umr. málsins hafa fjölmörg atriði komið fram sem telja má ný í málinu. Fjölmargar ábendingar hafa komið fram um þætti í frumvarpinu sem ekki hafa fengið umfjöllun áður og ég ætla að víkja að nokkrum þeirra atriða síðar í ræðu minni.

Ég veit ekki hvort hv. þm. Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, hlýðir nú á þessa ræðu. Hann er ekki í salnum en hann hefur lýst því yfir að hann hlusti á allar ræður sem hér eru fluttar þannig að ég verð að treysta því að hann hlýði á mál mitt og bregðist við ef honum finnst tilefni til. Ef ekki hann þá geta aðrir hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna auðvitað brugðist við þeim sjónarmiðum sem hér koma fram. Ef ég er á villigötum eða misskil eitthvað væri ég þakklátur fyrir að fá leiðréttingu þeirra mála. Tilgangur þessarar umræðu og hlutverk okkar þingmanna í jafnmikilvægu máli og þessu hlýtur að vera að velta við hverjum steini, kalla fram ólík sjónarmið, rökræða þau og komast að niðurstöðu. Rökræðan er það tæki sem við höfum til að komast að niðurstöðu, hún er tæki lýðræðisins.

Það er rétt eins og kom fram í umræðum fyrr í morgun að á endanum er það meiri hlutinn sem ræður. Okkar skipulag, lýðræðisskipulagið, byggir þó ekki bara á því að niðurstaðan sé fengin með meirihlutaatkvæðagreiðslu. Það byggir á því að ákvarðanir séu teknar að vel ígrunduðu máli eftir rökræður þar sem menn hafa tækifæri til að koma fram með rök og gagnrök til að leiða sannleikann í ljós eftir því sem kostur er, þannig að menn geti vegið og metið þær röksemdir sem hvor um sig hefur fyrir sínu máli.

Það hefur jafnvel gerst, og er í sjálfu sér ekki sjaldgæft, að umræður þar sem nýjar upplýsingar og ný sjónarmið eru leidd í ljós verði til þess að menn skipti um skoðun. Það er engin minnkun, hvorki fyrir þingmenn né aðra, að skipta um skoðun ef þeir sjá að sú afstaða sem þeir höfðu í upphafi var ekki byggð á nægilega traustum grunni. Við sáum þetta t.d. gerast í sumar. Afstaða fjölmargra þingmanna til þess Icesave-frumvarps sem þá var til umræðu breyttist meðan á meðferð málsins stóð, vegna þess að nýjar upplýsingar komu fram, ný sjónarmið og ný nálgun. Því miður hefur ekki verið opnað á að ný sjónarmið komist að í meðferð þessa frumvarps. Meiri hlutinn hefur ekki gefið nokkurt svigrúm til að breytingar séu gerðar á málinu og í stað þess að koma hingað í ræðustól og rökstyðja sína afstöðu, færa rök sem kunna að vera fyrir hendi og kunna að vera áhugaverð og mikilvæg, hafa þeir reynt að þegja sig í gegnum þessa umræðu. Ég verð að segja, hæstv. forseti, að mér finnst það ekki benda til þess að þeir hafi góðan málstað að verja.

Ég nefndi áðan að það væru nokkur atriði sem ég ætlaði að árétta sérstaklega. Ég bið hv. þm. Guðbjart Hannesson að bregðast við ef hann heyrir til mín, en hann segist heyra allar ræður sem hér eru fluttar um þetta mál. Ef hann er ekki nærstaddur bið ég aðra úr meiri hluta fjárlaganefndar að bregðast við fimm spurningum sem ég vænti að fá svör við.

Fyrsta atriðið hefur nokkuð komið til umræðu bæði við 1. umr. málsins, í athugasemdum sem bárust fjárlaganefnd og í 2. umr. en mér vitanlega hefur enginn svarað því enn þá. Það er spurningin: Var á einhverju stigi málsins skoðað af hendi nefnda þingsins hvaða áhrif sú breyting hefði að fyrirvarar væru fluttir úr íslenskum lögum um ríkisábyrgð yfir í viðaukasamningana sem lúta enskum lögum og verða túlkaðir fyrir enskum dómstólum? Þetta er athugasemd sem ég og fleiri þingmenn settum fram strax í upphafi og fleiri aðilar, meðal annars Indefence-hópurinn, hafa vakið athygli á.

Mér vitanlega, og leiðrétti mig þeir sem telja sig vita betur, hefur þessari spurningu ekki verið svarað. Hún getur verið veigamikil. Það getur skipt verulegu máli hvort fyrirvararnir standa eins og þeir voru ákveðnir með íslenskum lögum af Alþingi hér í haust eða hvort þeir útþynntu fyrirvarar sem settir eru inn í viðaukasamningana eru þar undir enskri lögsögu. Ég minnist þess að hv. þm. Pétur Blöndal hefur ítrekað spurt um þetta og ég hef ekki orðið var við að hann fengi svör. Þetta getur verið gríðarlega mikilvægt mál vegna þess að enskur réttur er í mörgum veigamiklum atriðum öðruvísi en sá íslenski og hefðir í ensku réttarfari eru allt aðrar en í því íslenska. Þetta er því spurning sem ég tel að fjárlaganefnd hefði átt að skoða gaumgæfilega en ég sé engin merki þess í nefndaráliti meiri hlutans að það hafi verið gert og ekkert í umræðunni bendir til þess að þetta hafi verið skoðað.

Í öðru lagi finnst mér rétt að spyrja, og ég beini orðum mínum enn til hv. þm. Guðbjarts Hannessonar eða annarra úr meiri hluta fjárlaganefndar: Þegar fjárlaganefnd fjallaði um þá gengisáhættu og gjaldmiðlaáhættu sem allir vita að er fyrir hendi í málinu, gerði fjárlaganefnd einhverja tilraun til þess að meta hana og komast að niðurstöðu í því sambandi? Í nefndaráliti meiri hlutans er reifað að þarna séu fyrir hendi ákveðnir áhættuþættir en ég sé enga niðurstöðu eða afstöðu í þessu. Ég spyr hvort fjárlaganefnd hafi rætt þetta með þeim hætti að hún hafi talið sig komast að niðurstöðu öðruvísi en að endurtaka bara ábendingar um að þarna kunni að vera óvissa og áhætta.

Ég held að þetta skipti sérstaklega máli í ljósi þess að í nefndarálitum efnahags- og skattanefndar, sem send voru fjárlaganefnd, var töluvert vikið að þessum þáttum. Þeir fjórir minni hlutar sem komu að málinu í efnahags- og skattanefnd höfðu mismunandi sýn á þessa þætti en fjárlaganefnd tekur enga afstöðu. Raunar hef ég á tilfinningunni að fjárlaganefnd hafi í sínum hópi ekkert rætt þetta heldur látið nægja að kalla eftir álitum úr efnahags- og skattanefnd og látið síðan prenta þau með nefndaráliti sínu án þess að gera nokkra tilraun til að komast að niðurstöðu. Það eru auðvitað algjörlega ófullnægjandi vinnubrögð af hálfu þingnefndar sem vill taka starf sitt alvarlega.

Í þriðja lagi vildi ég spyrja út í vaxtaþátt málsins sem nefndur er í m.a. nefndaráliti minni hluta sjálfstæðismanna og framsóknarmanna í efnahags- og skattanefnd og nefndaráliti sjálfstæðismanna í fjárlaganefnd. Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson gerði einnig grein fyrir þessum þætti í ræðum bæði í morgun og í gærkvöldi. Fór fjárlaganefnd með einhverjum sjálfstæðum hætti yfir vaxtaþátt málsins út frá þeim sjónarmiðum sem komu fram í álitum efnahags- og skattanefndar? Eða fannst fjárlaganefnd engin ástæða til þess að fjalla um þessi mál? Voru gjaldmiðla- og gengismálin annars vegar og vaxtamálin hins vegar svo ómerkileg að það þurfti ekkert að ræða þau? Var einhver skýr niðurstaða í efnahags- og skattanefnd? Efnahags- og skattanefnd skilaði fjórum mismunandi álitum. Maður hefði haldið að stóra nefndin sem óskaði eftir því að hin nefndin sendi sér álit mundi ræða þessar ólíku skoðanir sem komu fram hjá nefndarmönnum í efnahags- og skattanefnd og reyna að komast að niðurstöðu. Nei, fjárlaganefnd tekur enga afstöðu til vaxtamálanna, meiri hluti fjárlaganefndar tekur enga afstöðu til gjaldeyrismálanna heldur nefnir bara að þar sé óvissa en reynir ekki að komast að neinni niðurstöðu.

Þessi vinnubrögð varðandi vaxtamálin og gengis- og gjaldmiðlamálin eru auðvitað allsendis ófullnægjandi. Það eitt hlýtur að kalla á að fjárlaganefnd taki málin til gaumgæfilegrar athugunar, ef ekki fyrr þá a.m.k. á milli 2. og 3. umræðu. Þá dugar engin málamyndaafgreiðsla. Þá á þingið og þjóðin, sem varðar þetta mál mikið, rétt á því að þeir nefndarmenn sem eru settir í þetta verkefni komist að niðurstöðu, eða reyni það í það minnsta, en endurprenti ekki bara álit annarra umyrðalaust. Það er allsendis ófullnægjandi.

Fjórða atriðið sem ég vildi nefna, hæstv. forseti, er stjórnarskrárvafinn. Í þessari umræðu eru tvö atriði, og raunar í 1. umr. líka, sem snúa að stjórnarskránni. Annars vegar er það spurningin um framsal dómsvalds frá íslenskum dómstólum út fyrir landsteinana til alþjóðlegra stofnana. Ég treysti mér til að fullyrða að sú leið sem valin er í lagafrumvarpi þessu varðandi aðkomu EFTA-dómstólsins að þessu máli á sér engin fordæmi í íslenskum lögum. Það er verið að fara leið sem ekki hefur verið farin áður, ég held að við verðum að hafa það í huga. Það er verið að prófa á nýjan hátt að forma í lagatexta aðkomu EFTA-dómstólsins að ákvörðunum íslenskra dómstóla. Þetta eitt hefði átt að kalla á góða stjórnarskrárathugun.

Ég minnist þess að fyrir fjórum eða fimm árum fjölluðum við í efnahags- og viðskiptanefnd um atriði sem þó var mun léttvægara, smærra í sniðum og léttvægara en það sem rætt er hér en varðaði afstöðu EFTA-stofnana gagnvart íslenskum dómstólum. Þá lágum við yfir því í efnahags- og viðskiptanefnd, mikið var rætt um það hér í þessum þingsal og við þingmenn höfðum ólíkar skoðanir á því. Kallað var eftir skýrum og ítarlegum lögfræðiálitum utan úr bæ. Þetta var umræða um samkeppnislög, sennilega árið 2005. Ég bendi á að engin slík vinna hefur átt sér stað og fjárlaganefnd hefur greinilega ekki kallað eftir neinni slíkri vinnu. Ekkert í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar bendir til þess að þetta mál hafi verið skoðað. Ekkert í framsöguræðu formanns fjárlaganefndar benti til þess að þetta mál hefði verið skoðað. Hann sagði reyndar aðspurður að þeir lögfræðingar sem tóku þátt í að semja frumvarpið hefðu sagst á fundi í nefndinni ekki hafa haft áhyggjur af þessu en ekkert er til á pappír um að þetta hafi verið skoðað. Ekkert bendir til þess að menn hafi leitað röksemda eða gagnraka í þessu máli og þetta er stjórnarskráin, þetta er spurningin um framsal fullveldis úr landi. Menn hafa stöðvað mál í umræðu og tekið þau til nefndar út af minna tilefni.

Þetta var bara annar stjórnarskrárvafinn. Hinn snýr að því sem prófessor Sigurður Líndal hefur vakið athygli á opinberlega og við þingmenn höfum ýmsir bent á í þessari umræðu. Það varðar heimildir löggjafans miðað við ákvæði stjórnarskrár til þess að veita ríkisábyrgð sem ekki er afmörkuð í tíma og ekki er afmörkuð með upphæð, ekki afmörkuð á neinn hátt. Eins og Sigurður Líndal bendir á í grein sinni frá 19. nóvember er í þessum efnum verulegur munur á frumvarpinu sem hér liggur fyrir og þeim lögum sem samþykkt voru í ágúst af því að takmarkanir sem annars vegar lutu að greiðslubyrði og hins vegar að tímamörkum eru horfnar. Fyrirvarar, öryggisventlar sem Alþingi setti hvað þetta varðaði hafa verið teknir út þannig að ríkisábyrgðin, verði hún samþykkt á grundvelli þessa frumvarps, er miklu víðtækari, opnari og óskilgreindari en sú ríkisábyrgð sem var samþykkt í sumar. Alþingi eru settar skorður varðandi hvaða ábyrgð það getur lagt á ríkissjóð. Þetta hefur ekkert verið skoðað, um þetta er ekkert fjallað í nefndaráliti meiri hlutans úr fjárlaganefnd og ég hef ekki orðið var við að í umræðunni hér í þinginu hafi þessum spurningum verið svarað.

Þessi stjórnarskrárþáttur er gríðarlega veigamikill. Hann er fjórða atriðið sem ég nefni sem hv. fjárlaganefnd þarf að taka til gaumgæfilegrar athugunar, ekki málamyndaathugunar heldur gaumgæfilegrar athugunar, ef ekki nú þegar þá a.m.k. á milli 2. og 3. umr. Komist meiri hluti fjárlaganefndar eða eftir atvikum fjárlaganefnd öll að þeirri niðurstöðu t.d. að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þessum tveimur veigamiklu stjórnarskrárþáttum óska ég eftir því að hún færi fyrir því rök. Það er ekki nóg að segja, eins og menn hafa gert, að lögfræðingar sem unnu fyrir ríkisstjórnina við að semja frumvarpið hafi sagt að þetta væri í lagi. Það er ekki fullnægjandi, menn verða að koma með röksemdir. Gögn, nefndarálit og annað þess háttar sem lagt er fram í sambandi við meðferð mála í þinginu, og raunar ræður þingmanna líka, eru lögskýringargögn. Ef vafi leikur á um stjórnarskrárgildi skiptir máli hvaða rök menn færa fram í umræðunum. Afstaðan er eitt en röksemdirnar skipta höfuðmáli þegar kemur að því að túlka og skýra ákvæðin.

Tími minn er á þrotum og ég verð að koma inn á fleiri atriði í síðari ræðum hér í umræðunni. Fimmta atriðið sem ég vildi nefna er að það hefur algjörlega skort á það í þessari umræðu að leitað sé svara við því hversu hratt eignir (Forseti hringir.) þrotabús Landsbankans muni endurheimtast. Það skiptir gríðarlegu máli í ljósi þess (Forseti hringir.) að ef við samþykkjum þetta frumvarp fer vaxtabyrðin að telja strax á þessu ári af 700 milljarða höfuðstól. (Forseti hringir.) Vextirnir bara á þessu ári eru 40 milljarðar kr.