Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 27. nóvember 2009, kl. 12:59:07 (0)


138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:59]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að þakka þingmanninum fyrir ræðuna og þessar fimm spurningar sem hann lagði fram til meðal annars formanns fjárlaganefndar. Ég geri ráð fyrir að formaður fjárlaganefndar muni svara þeim spurningum.

Í fyrra andsvari langar mig að velta upp þeirri óvissu sem vofir yfir okkur út af þessum samningi og þessari vinnu allri saman. Telur hv. þingmaður forsvaranlegt að gera slíkan opinn samning sem við vitum í raun aldrei hvenær taki enda? Er eðlilegt að skuldbinda framtíðina með þessum hætti, börnin sem munu erfa landið og þurfa að greiða þetta? Við vitum ekki einu sinni hversu margar kynslóðir er verið að skuldbinda með þessum samningi því að hann er óendanlegur. Verið er að veita óendanlega ríkisábyrgð á upphæðum sem við í raun vitum ekki hverjar geta orðið þegar upp er staðið. Þær munu nema hundruðum milljarða, það er alveg ljóst. Í besta falli eru það væntanlega á bilinu 250–400 milljarðar, í versta falli geta það orðið 1.000 milljarðar eða meira. Það veit enginn.

Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann að því hvort hann telji þetta forsvaranlegt og um leið hvort hann muni eftir viðlíka dæmi um að slíkar byrðar eða slíkri óvissu sé tekið af þeirri léttúð sem raun ber vitni með þetta frumvarp, ekki síst í ljósi þess að ekki er lengur nein pressa á málinu. Lánin eru að koma frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum ef við viljum, (Forseti hringir.) því er búið að lýsa yfir, og eins hafa Norðmenn lýst því yfir að frá 28. október hafi þau lán verið til reiðu. (Forseti hringir.) Er þessi óvissa forsvaranleg?