Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 27. nóvember 2009, kl. 13:03:34 (0)


138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Það er nauðsynlegt að draga mjög skýrt fram að það er verið að skilja eftir opinn tékka fyrir framtíðina með þessu hrikalega máli í umhverfi sem kallar í sjálfu sér ekki á það. Aðstæðurnar í dag eru allt öðruvísi og annars eðlis en þær voru fyrir ári síðan, ekki síst í ljósi þess að það er búið að upplýsa að lánin verða veitt til okkar ef við þurfum á þeim að halda og norska lánið hefur verið opið frá 28. október.

Auðvitað læðist að manni sá grunur, frú forseti, að hér sé um að ræða Evrópusambandsóttann, þ.e. þá kúgun sem Evrópusambandið beitir okkur klárlega og hefur meðal annars verið komið inn á í fjölmiðlum núna. Ályktun var samþykkt á Evrópuþinginu í þá veru að ef Ísland samþykkti ekki Icesave mundi það tefja fyrir inngöngu í Evrópusambandið. (Gripið fram í: Hindra hana vonandi.) Já, hindra hana vonandi, ég er sammála því. Vonandi verður það svo, hv. þingmaður. Ef það er rétt að Evrópusambandið sé að kúga okkur með þessum hætti skil ég ekki hvernig sá ríkisstjórnarflokkur sem Vinstri grænir eru getur samþykkt að þetta mál fari í gegn.

Mig langar að spyrja hv. þingmann varðandi stjórnarskrána. Hann nefndi grein Sigurðar Líndals eða efasemdir hans sem vitanlega þarf að taka til skoðunar og það er vitanlega hroki ef fjárlaganefnd gerir það ekki. Síðan nefndi hann annað atriði sem ég hreinlega missti af. Mig langar að biðja hv. þingmann að nefna fyrir mig aftur hvaða atriði það var því að öll höfum við undirritað eiðstaf við stjórnarskrána og (Forseti hringir.) það er mjög alvarlegt ef ríkisstjórnin keyrir í gegn frumvarp, frú forseti, sem gerir það að verkum að við þingmenn, og frú forseti, brjótum stjórnarskrána.