Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 27. nóvember 2009, kl. 13:07:50 (0)


138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er mjög verðmætt fyrir þessa umræðu að við förum í gegnum lögfræðilegu hlutina og þar sem hv. þingmaður er manna fróðastur um þau mál langar mig til að spyrja hann tveggja spurninga.

Í fyrsta lagi hafa verið birt núna á síðustu dögum bréfaskipti tveggja forsætisráðherra, bresks forsætisráðherra og hæstv. forsætisráðherra Íslands. Hvernig lítur hv. þingmaður á það sem lögskýringargagn að breski forsætisráðherrann lýsir því yfir að þetta frumvarp sem við erum hér að samþykkja sé lagaleg binding á samkomulaginu? Hvernig mun það líta út gagnvart breskum rétti, af því að þetta heyrir jú allt undir breskt réttarfar? Á móti kemur síðan íslenski forsætisráðherrann og segir eitthvað allt annað. Hvor heldur hv. þingmaður að hafi meira lagagildi eða lagastuðning þegar menn fara að reka þetta fyrir breskum dómstóli, breski forsætisráðherrann eða sá íslenski?

Þá er það önnur spurning. Við Íslendingar höfum stjórnarskrá til að vernda borgarana á meðan Bretar hafa ekkert slíkt, þeir eru ekki með stjórnarskrá. Til þess að skuldbinda ríkissjóð Íslands þarf lagasetningu frá Alþingi, þess vegna erum við jú að fjalla um þetta frumvarp. Spurning mín til hv. þingmanns er eftirfarandi: Getur það haft áhrif á niðurstöðu bresks dómstóls að þeir eru ekki með stjórnarskrá sem bindur hendur fjárveitingavaldsins á meðan Íslendingar hafa stjórnarskrá? Getur verið að breskur dómstóll muni ekki líta til íslenskrar stjórnarskrár í þessu samhengi?