Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 27. nóvember 2009, kl. 14:19:25 (0)


138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:19]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka fram að öll fundarstjórn sem ég hef fylgst með hjá frú forseta hefur verið til fyrirmyndar þannig að ég er svo sannarlega ekki komin hingað til að gera athugasemdir við forsetann sjálfan.

Hins vegar vil ég taka undir orð hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar. Heilmikil umræða fór fram hér í gær um mikilvægi þess að stjórnarliðar væru viðstaddir og það virtist vera mat stjórnarliða að það ætti að vera nóg að hæstv. fjármálaráðherra væri viðstaddur umræðuna — og hann hefur svo sem staðið sig þokkalega í því — eða hv. þm. Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar. Við bendum hér á marga mikilvæga punkta í þessu máli og ég tel að þeir menn sem bera þetta mál fram hljóti að þurfa að sitja hérna í gegnum umræðuna og hlusta, þótt ég ætli svo sannarlega ekki að (Forseti hringir.) krefjast þess að þeir taki til máls enda væntanlega til of mikils mælst.