Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 27. nóvember 2009, kl. 14:21:48 (0)


138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég kem hingað upp til þess að auglýsa eftir formanni og varaformanni fjárlaganefndar vegna þess að það er algjörlega óábyrgt, sérstaklega af formanninum, að vera ekki við þessa umræðu þegar þetta stóra mál er á dagskrá. Það vill svo til, frú forseti, að ég held að þeir séu báðir á fundi sem ég á í rauninni að vera á líka. Ég kaus hins vegar að vera á þessum fundi því ég taldi að þetta mál væri eitt mikilvægasta mál þessa dags. Þeir hins vegar kjósa að vera úti í bæ á öðrum fundi. Ég ætlast til þess, frú forseti, og óska eftir því að það verði gerðar ráðstafanir til þess að þeir komi hingað, alla vega formaður fjárlaganefndar, og verði við þessa umræðu.

Frú forseti. Ég vil einnig benda á að við í stjórnarandstöðunni höfum boðið upp á að taka önnur mál á dagskrá og geyma þetta mál en fara síðan í það aftur þegar við erum búin að ræða þau mál sem varða skatta, fjáraukalög og frumvörp sem snerta heimilin og fyrirtækin í landinu. Það er ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn sem ákveður að (Forseti hringir.) halda áfram með þetta mál en ekki vinda sér í hin málin.