Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 27. nóvember 2009, kl. 14:24:02 (0)


138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mig langar líka að auglýsa eftir ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Forsætisráðherra er ekki hér og ekki fjármálaráðherra, þeir ráðherrar sem bera mesta ábyrgð á þessu máli. Ég óska eftir því, virðulegi forseti, að þeir verði kallaðir hingað í salinn ásamt formanni fjárlaganefndar í það minnsta, ella verði gert hlé á þessum fundi meðan verið er að ná í þetta ágæta fólk.

Eitt langar mig að segja líka. Virðulegur formaður fjárlaganefndar sagði áðan varðandi fjáraukalög að Framsóknarflokkurinn hefði ekki skilað sinni vinnu í þeim efnum. Ég vil benda hv. þingmanni á að ég sem fulltrúi Framsóknarflokksins hef setið fundi í fjárlaganefnd ásamt Vigdísi Hauksdóttur í fjarveru Höskuldar Þórhallssonar og við erum og verðum á minnihlutaáliti með Sjálfstæðisflokknum. Það er því verulega ósanngjarnt sem kom fram í máli hv. þingmanns, formanns fjárlaganefndar. Ég ítreka að það er mjög mikilvægt að hann sé við þessa umræðu svo hægt sé að eiga við hann orðastað.