Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 27. nóvember 2009, kl. 14:25:20 (0)


138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:25]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er enginn bragur á þessu fundahaldi í dag. Hér er enginn hæstv. ráðherra til þess að taka þátt í umræðum. Hér vantar alla helstu leiðtoga stjórnarliðsins í hópi hv. þingmanna sem hafa komið að þessu máli og borið það fram hér á þingi. Enginn þeirra hv. þingmanna er í salnum. Hér eru tveir ágætir þingmenn stjórnarandstöðunnar og ber að virða það — (Gripið fram í: Stjórnarliðar.) Stjórnarliðar, afsakið, eins gott að vanda sig með þetta, hv. þingmenn úr hópi stjórnarliða. Aðrir hv. þingmenn eru ekki viðstaddir en umræðan með þessum formerkjum, frú forseti, stenst ekki þær kröfur sem við hljótum að gera til jafnmikilvægrar umræðu og þessarar sem hér á að eiga sér stað.

Enn á ný vil ég ítreka, frú forseti, að það tilboð stendur til stjórnarmeirihlutans að úr því þau eiga erfitt með að senda fólk hingað til umræðu um þetta stærsta og mesta mál sem hefur rekið á fjörur þessa þings í svo langa tíð, og jafnvel allri sögunni, er það boð (Forseti hringir.) stjórnarandstöðunnar að taka málið til hliðar, hleypa mikilvægum málum áfram og halda svo áfram umræðunni um þetta mál. Þá er hægt að gera þetta með einhverjum sæmilegum (Forseti hringir.) og eðlilegum brag.