Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 27. nóvember 2009, kl. 14:28:29 (0)


138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:28]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Eins og ég sagði áðan er ég næstur á mælendaskrá. Gríðarlega margt hefur komið fram í þessari efnismiklu umræðu okkar þingmanna minni hlutans á undanförnum dögum og ég vil að þeir hv. þingmenn sem bera málið fram fyrir hönd meiri hluta fjárlaganefndar sitji hér og hlusti á mína ræðu. Annars finnst mér að á mér sé brotið sem þingmanni og ég vísa þá til þingskapalaga um að þeim ber skylda til þess að vera viðstaddir þennan þingfund, sér í lagi vegna þess að þeir eru flutningsmenn málsins við 2. umræðu. Það væri alveg nýtt á vettvangi þingsins ef ég þyrfti að standa hér á eftir, vitandi að þeir aðilar sem bera málið fram eru ekki í húsinu og hlusta ekki á það sem ég hef fram að færa. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að frú forseti láti það viðgangast að ég þurfi að standa upp og flytja ræðu án þess að formaður (Forseti hringir.) eða varaformaður fjárlaganefndar séu viðstaddir hana.