Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 27. nóvember 2009, kl. 14:31:07 (0)


138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:31]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir að sitja hérna, einn stjórnarliða, og hlusta á okkur. Jafnframt vil ég taka undir orð hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar um að þetta er ekki bara spurning um að ráðherrarnir sitji hérna og að við tölum ekki hér með ráðherrabekkina tóma. Ég ætla nú ekki að ganga svo langt að segja það sama um hv. þm. og formann fjárlaganefndar, Guðbjart Hannesson, og kom fram í máli hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar sem kom með ásakanir á hendur fulltrúa Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd um að hann sinni ekki vinnu sinni en sú hugsun hvarflar þó að manni þegar viðkomandi sést ekki hérna í þingsal í umræðum um þetta stóra og mikilvæga mál, mál sem hann er nú orðið flutningsmaður að. Fulltrúi fjárlaganefndar var hérna inni fyrir 40 mínútum síðan en hvarf núna úr salnum og því (Forseti hringir.) ítreka ég ósk mína um að kallað sé eftir formanni fjárlaganefndar til þess að hlýða á umræðuna.