Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 27. nóvember 2009, kl. 14:32:39 (0)


138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:32]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Vegna þess að ekki hafa fengist viðhlítandi svör við því hvenær von er á hv. þm. formanni fjárlaganefndar og hv. þm. varaformanni fjárlaganefndar Guðbjarti Hannessyni og Birni Vali Gíslasyni, sem munu vera á fundi úti í bæ og geta því illa sinnt umræðunni, held ég að sé nauðsynlegt vegna framgangs þingstarfa í dag að hæstv. forseti afli sér upplýsinga um það hvenær von sé á þessum ágætu herramönnum hingað í hús svo hægt sé að eiga við þá orðastað. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd á ég eftir að halda mína fyrstu hálftímaræðu í því mikla málþófi sem hér fer fram. Ég held að það sé óumflýjanlegt að fulltrúar stjórnarliðsins í fjárlaganefnd og forustumenn stjórnarliðsins í fjárlaganefnd séu viðstaddir þegar fulltrúar í fjárlaganefnd halda ræður sínar. Ég fer því góðfúslega fram á það við virðulegan forseta að reynt sé að afla viðhlítandi upplýsinga um hvenær von sé á þessum herramönnum. Og enn fremur væri fróðlegt að fá það frá hæstv. forseta, hver er fyrirætlun forseta um framgang þinghalds hér í dag?