Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 27. nóvember 2009, kl. 15:02:08 (0)


138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:02]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að ítreka það sem ég sagði áðan að mér finnst dapurlegt að hér sé fulltrúi Framsóknarflokksins í efnahags- og skattanefnd að halda ræðu og engir forustumenn, hvorki í efnahags- og skattanefnd né fjárlaganefnd, séu sjáanlegir. Auðvitað er dapurlegt þegar um svona mál er að ræða og fulltrúi stjórnmálaflokks er að reifa skoðanir flokks síns að svo skuli vera í pottinn búið. Það er ástæða til að gera athugasemdir við það.

Að öðru leyti langar mig til að spyrja hv. þm. Birki Jón Jónsson um þá umræðu sem var í efnahags- og skattanefnd, vegna þess að málinu var þannig háttað að hv. fjárlaganefnd fékk fjögur álit frá efnahags- og skattanefnd, þar af tvö frá ríkisstjórnarflokkunum. Asinn var hins vegar svo mikill á því að ljúka málinu í hv. fjárlaganefnd að það gafst ekki tími til að ræða þessi fjögur álit í nefndinni. Sama dag og þau voru kynnt var málið tekið út í miklu offorsi.

Mig langar því til að spyrjast fyrir um það hvort rædd hafi verið sérstaklega í efnahags- og skattanefnd þau sjónarmið sem hafa verið uppi og koma nokkuð fram í að ég hygg 4. minnihlutaáliti efnahags- og skattanefndar, um vaxtakjör. Þá er ég sérstaklega að tala um þá spurningu hvort betra sé að hafa breytilega vexti en fasta vexti, og hvort það hafi verið tekið sérstaklega á þessu í efnahags- og skattanefnd. Efnahags- og skattanefnd er sú nefnd þingsins sem hefur hvað mest um þetta að segja og sjónarmið hennar skipta verulega miklu máli.

Nú sjáum við fram á það að efnahagsástandið í heiminum fer mjög hægt batnandi, ef það er að batna nokkuð. Það eru verulegar blikur á lofti núna t.d. í Bretlandi og miklar áhyggjur þar vegna stöðunnar í Dubai og skuldsettra Breta þar. Það er því engin sérstök ástæða til að halda það að breytilegir vextir muni hækka mjög ört á næstu árum. Var þetta rætt í efnahags- og skattanefnd? Ég tel mjög brýnt að fá það fram hvernig þessu máli var háttað í nefndinni.