Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 27. nóvember 2009, kl. 15:10:26 (0)


138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:10]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur verið reglan hér í gegnum árin, eins og hv. þingmaður þekkir, að við 2. umr. eru forustumenn nefnda viðstaddir alla þá umræðu. Það þekkja m.a. þeir sem hafa gegnt formennsku í fjárlaganefnd að það hefur verið maraþonseta fram eftir kvöldi og fram eftir nóttu, en menn hafa látið sig hafa það og hlustað á þá umræðu. Ég man þá tíð að ef slíkt gerðist ekki af einhverri slysni gagnrýndu núverandi meirihlutaflokkar sem eru hér við völd, það harkalega. Þá var yfirleitt gripið til þess að kalla viðkomandi í salinn og ef hann kom ekki í salinn voru dæmi um að umræðum væri frestað. Það var akkúrat sú beiðni sem ég bar upp við frú forseta, sem var reyndar annar forseti en sú sem nú er hér. Í ljósi þess að hér er kominn nýr forseti, vil ég spyrja hæstv. forseta um leið og ég lýk svari mínu, hvort hún telji ekki nauðsynlegt að fresta umræðunni, þannig að forustumenn fjárlaganefndar sem leggja málið fram verði viðstaddir umræðuna og hlýði á þær fyrirspurnir sem við höfum lagt fram og svari þeim. Ég spyr frú forseta áður en ég fer úr ræðustólnum, því að mér finnst það mikilvægt upp á virðingu þingsins að menn viðhaldi þeirri hefð að við 2. umr. séu forustumenn nefnda viðstaddir þá umræðu og svari þeim spurningum sem um ræðir. Við erum ekki að tala um neitt smámál hérna, við erum að tala um eitt stærsta mál sem Alþingi Íslendinga hefur fjallað um í lýðveldissögunni. Ef menn ætla að fara að brjóta þessa hefð í slíku máli, er alla vega mín tillaga sú að forsætisnefnd þingsins komi saman og ræði það frekar áður en við höldum áfram.