Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 27. nóvember 2009, kl. 15:15:27 (0)


138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:15]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Vegna ummæla hæstv. forseta áðan, um að gerðar hafi verið ráðstafanir til að kalla formann og varaformann fjárlaganefndar, hv. þingmenn Guðbjart Hannesson og Björn Val Gíslason, til húss hef ég heyrt hér á göngunum að þeir hafi ásamt fleiri þingmönnum verið boðaðir á fund í sjávarútvegsráðuneytinu á þessum degi þegar þingfundur var samkvæmt starfsáætlun. Ég segi þetta vegna þess að hæstv. samgönguráðherra Kristján L. Möller, sem ekki er í húsi núna og hefur ekki verið um skeið, gerði athugasemdir við að miðstjórnarfundur Sjálfstæðisflokksins hefði verið haldinn nú í hádeginu, taldi það mjög óviðeigandi af því þetta væri boðaður þingfundardagur en hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur boðað fjölmarga hv. þingmenn upp í ráðuneyti til að ræða þetta, m.a. þá þingmenn sem mestu hlutverki hafa að gegna í þessari umræðu. Á sama tíma er sú staða uppi að boðaður er fundur í Þingvallanefnd þar sem sitja fjölmargir þingmenn. Hefur hæstv. forseti velt því fyrir sér (Forseti hringir.) hvort það sé einhver boðskiptavandi sem leiði til þess að svona margir fundir eru haldnir á þeim tíma sem þessi umræða á að fara fram hér?