Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 27. nóvember 2009, kl. 15:56:35 (0)


138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta eru athyglisverðar upplýsingar sem koma fram í máli hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar. Það hefur löngum verið litið svo á og talað eins og athugasemdir sem fram hafa komið við þetta frumvarp væru allar byggðar á misskilningi og væru einhvers konar útúrsnúningar eða della. Það minnir svolítið á það umtal og orðræðu sem átti sér stað í sumar þegar menn byrjuðu að gagnrýna Icesave-samningana og frumvarpið sem lagt var fram 3. júlí. Það var allt saman misskilningur og vitleysa og hæstv. fjármálaráðherra kom í Kastljós og sagði að öllum athugasemdum hefði verið svarað með rökum, eins og hann sagði í byrjun ágúst. Svo endaði þetta með því að athugasemdirnar leiddu til þess að settir voru veigamiklir fyrirvarar sem hæstv. fjármálaráðherra studdi á endanum. Þetta sýnir að það er til einhvers að ræða málin og það er til einhvers að koma með athugasemdir, jafnvel þó að ekki takist að særa hv. stjórnarliða upp í ræðustól, hlusta a.m.k. einhverjir þeirra á eitthvað af því sem við erum að segja.