Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 27. nóvember 2009, kl. 16:04:37 (0)


138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil þakka síðasta ræðumanni fyrir einkunnagjöfina. Mér fannst hún reyndar ástæðulaus en vel má vera að við séum að endurtaka okkur en ég tel svo ekki vera.

Mig langar hins vegar til að tala um fundarstjórn forseta. Það er óþekkt, að ég tel, að framsögumenn máls séu ekki viðstaddir umræðu, ég held að það sé algjörlega óþekkt. Fundarstjórn forseta gengur út á það að forseti hefði getað frestað umræðu þar til þessir hv. þingmenn hefðu tíma til þess að ómaka sig niður á þing til að taka þátt í þessu litla máli sem við erum að ræða.

Svo vil ég líka geta þess, frú forseti, að það að hafa þingfund hér kvöld eftir kvöld eftir kvöld gefur merki út í þjóðfélagið, sérstaklega til ungra kvenna, um að vera ekki að sækja um að fara á þing. Þessi aðgerð er afskaplega fjölskylduóvæn. Ég er ekki með lítil börn, (Forseti hringir.) þetta er allt í lagi fyrir mig en ég get ímyndað mér hvernig er að vera með lítil börn heima. (Gripið fram í.)