Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 27. nóvember 2009, kl. 16:41:56 (0)


138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þessi orð. Ég vil þó, frú forseti, endurtaka það sem ég sagði áðan að frá því klukkan eitt er búið að auglýsa eftir annaðhvort formanni fjárlaganefndar eða varaformanni. Það hefur ekki tekist að koma þeim hingað í salinn eða hús og bera þeir nú ábyrgð á þessu máli.

Það hefur komið fram að vitanlega eru þetta gríðarlega miklar byrðar sem eru að leggjast á þjóðina, verði af þessum samningi. Ef það er rétt að tekjuskattur rúms helmings eða tæplega helmings einstaklinga á Íslandi fari í að greiða vextina af þessu, eins og komið hefur fram hjá þingmönnum Hreyfingarinnar, sjáum við vitanlega að það gengur ekki að taka út svo stóran hluta af skattgreiðendum til að borga af þessu eina máli. Við erum þá ekki að nota þá peninga til að framkvæma fyrir, til að standa undir velferðarþjónustunni, til að borga af öðrum lánum eða slíku. Það er því einsýnt, hv. þingmaður, að einhvers staðar þarf að mæta því tekjutapi því að ekki er neitt í spilunum sem sýnir að þessi ágæta ríkisstjórn ætli sér að auka tekjur. Maður veltir fyrir sér: Verður þetta þannig að bæði verði skorið niður og við skattlögð út úr þessu til að borga Icesave-reikningana? Verður það þannig? Hvernig verða skattarnir þá í framtíðinni? Nú er að koma í ljós og leka út að verið sé að skoða einhverja aukaskatta sem ekki eru í fjárlagafrumvarpinu, eins og t.d. komugjöld á ferðaþjónustu og eitthvað slíkt. Það mun vera í einhverri nefnd. Ég hefði haldið að það ætti að vera í fjárlagafrumvarpinu ef menn ætla að leggja það fram á annað borð.

Ég óttast það að eftir áramót þegar búið verður að samþykkja frumvarpið munum við einhvern tímann á miðju ári sjá fram á nýja skatta og eitthvað slíkt.

En, já, hæstv. þingmaður, ég held að þetta muni koma verulega (Forseti hringir.) við pyngjuna hjá okkur og því þurfum við að mæta á einhvern hátt.