Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 27. nóvember 2009, kl. 17:40:06 (0)


138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:40]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnirnar sem eru fjórar. Ég ætla að reyna að svara þeim öllum.

Í fyrsta lagi hvað það varðar að þetta séu betri fyrirvarar, förum aðeins yfir það mál. Stjórnarandstaðan var hér í sumar að pressa á stjórnina í allt sumar að setja fyrirvara. Þeir voru tregir til, sögðu svo: Þetta verður að vera innan ramma samkomulagsins. Síðan samþykkjum við fyrirvarana og þeir segja: Þetta er innan ramma samkomulagsins.

Út á hvað ganga fyrirvararnir? Þeir ganga út á það að gæta hagsmuna Íslands. Það er öllum ljóst að viðsemjendurnir eiga á hættu að fá miklu minni fjármuni út af fyrirvörunum. Getur einhver haldið því fram að viðsemjendurnir hafi þá sagt: Heyrðu, frábært, bætum aðeins í þessa fyrirvara. Við skulum gæta hagsmuna ykkar miklu betur. Hvers konar dómadagsdella er þetta? Þetta er algerlega galið. Að einhverjum skuli detta í hug að halda því fram að málum hafi verið þannig fyrir komið, það er bjartsýnn einstaklingur. Það er ljóst að þetta er aðgöngumiðinn inn í ESB. Svo einfalt er það. Og hann er rosalega dýr.

Varðandi það hvort fordæmi sé fyrir því að þjóðir hafi látið kúga sig og beygja, þá eru fordæmi fyrir því. En það er vanalega við stríðsástand, það er vanalega vegna þess að mönnum er ógnað með hernaðarvaldi eða gríðarlegri ógn. Menn þurfa að segja það eins og það er ef Evrópusambandið eða þessi ríki hafa verið með einhverjar gríðarlegar hótanir um að við munum virkilega fá að finna fyrir því og þá með hvaða hætti ef við samþykkjum ekki breytingar á fyrirvörunum sem lagðir voru til eða réttara sagt afnám þeirra. Hvað eigum við að gera, virðulegur forseti? Við erum með lög. Við samþykktum þau í sumar. Það er ekkert meira að gera í þessu máli.