Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 27. nóvember 2009, kl. 19:01:25 (0)


138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við fengum að heyra það í ræðu hæstv. forsætisráðherra í gær að ef þetta mál sem við erum nú að ræða, í rauninni algjörlega nýtt mál síðan Alþingi afgreiddi Icesave-málið frá sér í sumar, þar sem búið er að gjörbylta öllu málinu, búið að draga úr öllum vörnum sem snerta íslenska hagsmuni, ef þetta mál yrði látið liggja mundi skella hér á mikill frostavetur. Það er vissulega kuldi úti núna, frú forseti, en við Íslendingar kunnum að klæða okkur vel, við kunnum að verjast kuldanum, við kunnum að lifa með honum og við kunnum að vinna okkur út úr kuldanum og jafnvel að fara út í ýmsar tilraunir og kúnstir, en við kunnum að lifa þetta af.

Það er hins vegar erfitt að sjá hvernig ríkisstjórnin ætlar að réttlæta þennan — afslátt er allt of vægt orð til að réttlæta það mál sem við ræðum nú, heldur þá uppgjöf sem er af hálfu ríkisstjórnarinnar í málinu. Það eru ekki bara við sjálfstæðismenn sem höfum verið að reyna að draga það fram, miklu frekar er hægt að draga fram frjáls félagasamtök í bænum eins og Indefence-hópinn sem vel að merkja er greinilega nóg boðið og farinn af stað með undirskriftasöfnun varðandi forseta Íslands og hugsanlegu undirskrift hans til samþykktar til að fylgja málinu eftir þegar og ef Alþingi Íslendinga samþykkir það eins og það liggur fyrir núna, að reyna að fá hann til þess að vera samkvæman sjálfum sér og skrifa ekki undir. Það er önnur saga. Ég kem kannski að því síðar eða í síðari ræðum ef tími gefst til.

Ég vil aðeins fara yfir málið því það skiptir miklu að menn hafi heildarsamninginn í huga og menn átti sig á því að málið, sem vissulega hafa verið gerð mistök í á fyrri stigum í sumar og ekki síst í haust á forsendum ríkisstjórnarinnar, skiptir okkur gríðarlega miklu, mál sem við unnum í þinginu, sáum fram úr hvernig hægt væri að leysa án þess að við værum í rauninni að gefa skít í viðsemjendur okkar. Það var nefnilega þannig, frú forseti, að í sumar sögðum við: Við ætlum að innleiða ákveðin ný vinnubrögð í þingið. Fólk allra flokka í fjárlaganefnd stóð sig vel. Það kom með ákveðna nýja hugsun inn í þingið og sagði: Við verðum að vinna sameiginlega að því af því þetta mál er ekki stjórn/stjórnarandstaða. Það er mikill misskilningur ef ríkisstjórnin heldur að málið snúist um hana. Þingmenn úr Sjálfstæðisflokki og líka úr Framsóknarflokki hafa sagt að þetta snúist ekki um ríkisstjórnina, þetta snýst um framtíð landsins og það að við getum staðið áfram undir velferðarkerfinu, menntakerfinu og grunnstoðum samfélagsins til lengri tíma litið. Þá þýðir ekki að reyna að humma málið fram af sér og segja núna: Það er búið að margræða þetta. Málið í sumar var margrætt. Og það fékkst niðurstaða. Niðurstaðan var sú að það eru lög sem eru í gildi í landinu.

Ég talaði um frostaveturinn sem hæstv. forsætisráðherra minntist á í gær í ræðu sinni. Hræðsluáróður, tvímælalaust þannig. Hræðsluáróður. Það á að reyna að hræða okkur á þinginu til ákveðinnar niðurstöðu og afgreiðslu. Það á að hræða þjóðina til fylgilags við þennan samning. Það á í rauninni að reyna að hræða þjóðina út í svo margt þessa dagana. Við sjáum hvernig til að mynda hæstv. fjármálaráðherra ræðir skattamálin. Það á að hræða þjóðina til þess að hækka skatta. Við munum taka þá umræðu síðar, við sjálfstæðismenn, þegar skattamálin koma til umræðu. En þetta er að verða ákveðin hræðslupólitík sem er rekin í öllum málum, ekki bara í þessu máli. Í stóru grundvallarmálunum er verið að byggja upp ákveðna hræðslu í samfélaginu sem er rekin áfram af hræðslu, hótunarpólitík ríkisstjórnarinnar. Það er miður. Það er miður að við í stjórnarandstöðunni þurfum að þvinga ráðherra í ríkisstjórn til að tala í þessu máli. Ég ætla þó að undanskilja hæstv. fjármálaráðherra sem hefur verið nokkuð iðinn við það, bæði að koma hingað upp í andsvör og vera hér í húsi. En við þurftum að ýta við forsætisráðherra til að fá hæstv. forsætisráðherra til að tala í málinu, en hún hafði ekki sagt eitt orð í haust í málinu öllu saman og taldi hennar tíma ekki vera kominn fyrr en í gær, og þá var þessi hræðslupólitík undirstrikuð.

Við munum alveg hvernig þetta var fyrir ári, öll sú hektík sem varð þá og verið var að knýja menn til að skrifa undir eitt og annað og mönnum hefur verið tíðrætt um minnisblaðið, MOU-ið eins og það er, með leyfi forseta, stundum kallað, sem var undirritað fyrir rúmu ári eða um miðjan október. Það var síðan afturkallað, enda hafði það ekkert gildi.

Það má í rauninni segja að Alþingi Íslendinga hafi tekið Icesave-málið í rauninni tvisvar sinnum úr höndum framkvæmdarvaldsins. Þegar utanríkismálanefnd afgreiðir málið af sinni hálfu í upphafi desember fyrir ári, 5. desember minnir mig að það hafi verið, var sérstaklega tekið fram að taka ætti mið af hagsmunum Íslendinga, hvernig aðstæður væru í samfélaginu, af því að þær eru einstæðar. Hann fór sérstaklega vel yfir það hvernig fjármálakreppan hefur farið í rauninni eins og ryksuga yfir allan heiminn og land okkar. Undir þetta tók m.a. forustuþjóðin í Evrópusambandinu, þ.e. Frakkar, bæði Christine Lagarde, fjármálaráðherra Frakklands, og Sarkozy, beittu sér í því til að undirstrika það. Hagsmunir Íslendinga í þessu máli voru að Hollendingar og Bretar yrðu að taka tillit til hagsmuna okkar Íslendinga. Þetta eru svonefnd Brussel-viðmið. Þetta var það sem utanríkismálanefnd þingsins undirstrikaði fyrir ári síðan.

Hvað gerist svo? Það verða stjórnarskipti og rætt hefur verið um það margoft. Ný stjórn kemur og hún ætlar að setja áherslur sínar á málið. Hún setur sína menn í málið. Þá byrja mistökin hjá framkvæmdarvaldinu. Þegar málið er búið að vera í höndum þingsins í desember, þingið búið að taka utan um málið og segja: Við viljum ná pólitískri lausn, margoft búið að koma fram að þingið, meiri hluti þingsins, vildi ná pólitískri lausn þar sem tekið yrði til tillit til aðstæðna á Íslandi, en þegar átti að útfæra það af hálfu framkvæmdarvaldsins byrja hver mistökin á fætur öðrum að birtast okkur. Skipt er um samninganefnd. Ég ætla ekki að fara út í persónur og leikendur í öllu því máli heldur sýnir það miklu frekar að hið pólitíska vald ætlaði heldur betur að sýna Sjálfstæðisflokknum, sem hafði og hefur verið við völd lengi, í fulla hnefana, sýna honum hvernig málin eru gerð, setja sitt fólk í það. Þarna átti einmitt að taka fyrsta skrefið í þá veru, eins og þjóðin hafði í rauninni kallað eftir, að menn færu að vinna saman. Það var ekki þannig að við sjálfstæðismenn værum að gera tilkall til þess að fara í ríkisstjórn, síður en svo. Við vildum leysa málið og þá fyrst byrjar ríkisstjórnin að bregðast hlutverki sínu, að leita ekki eftir sáttum.

Svo rekur hvert málið, stórmálið, annað, frú forseti. Við getum talað um stjórnarskrármálið þar sem við sjálfstæðismenn ásamt öðrum komum í veg fyrir að stjórnarskránni væri í rauninni hent út á hafsauga af miklu virðingarleysi í umgengni af hálfu þingsins. Við komum í veg fyrir það. Af hverju? Af hverju þurftum við þá að koma í veg fyrir það í þinginu? Jú, það var út af því að í fyrsta sinn í sögu þingsins á undanförnum 50 árum var verið að breyta og í rauninni að gjörbreyta stjórnarskránni án þess að það væri þverpólitískt samkomulag. Það var ekki mikið eftir af vinnu stjórnarskrárnefndarinnar sem skipuð var. Það voru ekki nema nokkrir mánuðir eftir af þeirri vinnu sem hefði getað leitt til þess að náðst hefði sátt um að breyta stjórnarskránni, þverpólitísk, og þá vonandi líka samfélagsleg sátt um það að breyta stjórnarskránni. Það var ekki gert.

Við getum talað um fiskveiðistjórnarkerfið. Við getum talað um ESB og aðildarumsóknina að ESB, þar sem enn og aftur hefur komið í ljós að leið okkar sjálfstæðismanna, að fá þjóðina í lið með okkur í allt þetta viðkvæma ferli, ferli sem má ekki skipta þjóðinni í tvær fylkingar, ferli þar sem fólkið verður að vera með okkur þrátt fyrir að hafa ákveðnar skoðanir á Evrópusambandinu með eða móti, þá verður ferlið allt að vera þess eðlis að fólk sætti sig við leiðina sem farin verður varðandi aðildarumsóknina að Evrópusambandinu.

Við sjálfstæðismenn sögðum að við ættum að leita til þjóðarinnar varðandi aðildarumsókn. Það var fellt. Ekki var leitað eftir þverpólitískri samstöðu um aðildarferlið allt saman af því að Samfylkingunni lá svo á að reyna að setja hraðamet, hraðamet sem núna hefur komið í ljós að verður ekki að veruleika. Ég held að sé ágætt að menn reyni að vanda sig í því máli, máli sem ég tel að eigi að leiða til lykta, þannig að þjóðin á endanum geti haft hið raunverulega vald um það hvort við eigum að vera innan eða utan Evrópusambandsins.

Þetta er dæmi um vinnubrögðin hjá ríkisstjórninni, enn og aftur, hvernig vinnubrögð ríkisstjórnarinnar hafa bitnað á stórmálum sem síðan bitna á þjóðinni sjálfri. Það er sama hvar borið er niður. Hægt er að nefna umfangsmiklar breytingar á orku- og auðlindamálum í formi svonefndrar skattlagningar á því sviði. Hægt er að nefna fiskveiðistjórnarmálið, hvernig verið er að breyta einni helstu undirstöðuatvinnugrein okkar Íslendinga sem hefur veitt okkur styrka stoð núna á þessum erfiðu tímum. Það átti að gjörbreyta öllu innan fiskveiðistjórnarkerfisins og í rauninni hefur þessi vitleysislega stefna ríkisstjórnarinnar í fiskveiðistjórnarmálinu leitt til þess að algjört frost er í fjárfestingum innan sjávarútvegsins. Það er út af stjórnarstefnunni. Það er út af því að ríkisstjórnin leitar ekki samráðs eða samvinnu í þeim stórmálum — svo ég nefni nú ekki Icesave, það mikla mál sem við ræðum nú. Ríkisstjórnin tók málið í sínar hendur og enn og aftur sýndi ríkisstjórnin það 5. júní að hún hafði ekkert frumkvæði í því að upplýsa þjóðina um málið.

Enn og aftur þurftum við þingmenn að spyrjast um hvað væri að gerast. Hvað er að gerast í Icesave-málinu? Það er ekkert að gerast, sagði fjármálaráðherra. Svo bingó, tveimur dögum síðar, eða var það þremur kannski, er allt í einu búið að semja. Við fengum að vita það í gegnum fjölmiðla að þá var komið heim með þennan hörmungarsamning. Þá gerist það í annað sinn að þingið tekur að mínu mati málið rækilega í sínar hendur. Tók í rauninni forræðið af ríkisstjórn Íslands og hefði getað bjargað ríkisstjórninni úr snörunni ef ríkisstjórnin hefði haft dug til þess að taka þingið með sér áfram í það ferli allt saman. En ríkisstjórnin gafst upp eins og fyrri daginn og gjörbylti niðurstöðu þingsins, þeirri niðurstöðu sem enn þá eru lög í landinu þar sem þeim lögum er búið að kollvarpa.

Maður veltir fyrir sér, hvernig stendur á því í ljósi þess að hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon sagði — í upphafi ársins, þegar nokkrir dagar voru í það að hann yrði ráðherra, ætli það hafi ekki verið viku áður en hann varð ráðherra — með leyfi forseta: „… að mesta örlagastund í Icesave-málinu er í rauninni eftir. Enn er hægt að afstýra stórslysi fyrir íslenska þjóð.“ Enn er hægt að afstýra stórslysi fyrir íslenska þjóð. Viku síðar er sami maður orðinn fjármálaráðherra. Þá breytist allt. Þá breytist allt í málinu. (Gripið fram í: Til hins betra?) Nei, ekki til hins betra. Ég held að við séum öll sammála um að málið allt hafi versnað til muna. En hann hefur enn ekki sagt hvað varð til þess að á innan við viku kollvarpar hann skoðun sinni. Hvað olli þeim sinnaskiptum Steingríms Jóhanns Sigfússonar, hæstv. fjármálaráðherra? Hvað olli þeim sinnaskiptum? Var það ESB og þrýstingur þaðan? Sumir hafa sagt það. Ég ætla ekki endilega að taka undir það. Ég ætla miklu frekar að taka undir það að hann er pragmatískur maður. Vinstri stjórnin þarf að halda völdum í landinu. Þetta er hluti af þeim fórnarkostnaði sem við þurfum, þjóðin, að standa undir til þess að ríkisstjórnin haldi völdum. Þetta er herkostnaðurinn af þessari vinstri stjórn að menn umturnast á innan við viku, komnir í stólinn og þá breytist allt, viðhorfin og allt saman.

Menn koma heim með þennan samning sem stjórnmálamenn í meirihlutastjórninni, vinstri stjórninni, réttlæta. Ég velti fyrir mér hvernig menn geti komið heim með svona samning þegar þingið hefur sagt frá því í desember að taka eigi tillit til Brussel-viðmiðana. Hvernig getur ríkisstjórnin það aftur eftir að þingið er búið að vinna málið og gæta þess að íslenskir hagsmunir séu hafðir að leiðarljósi, þegar þingið er búið að gæta þess að við borgum alla fjárhæðina, alla skuldina, allt Icesave-málið, 2024 ef við höfum hagvöxt til þess og við höfum fjármagn til þess? Þetta var rausnarboð. Það var ekki þannig að við værum ekki að bjóða þeim eitt né neitt. Það var ekki þannig. Þetta var eðlileg framsetning af okkar hálfu.

En í stað þess að taka boltann með okkur í stjórnarandstöðunni og segja: komið þið með okkur, málið er í rauninni úr okkar höndum, þingið hefur allt forræði á málinu, þá ákvað ríkisstjórnin að gera þetta aftur upp á sitt eigið eindæmi. Ég veit ekki hvort við stöndum frammi fyrir því að eiga „Chamberlain“ í ríkisstjórn okkar, en þetta virkar þannig. Ég ætla ekki að deila um hvort þeirra er „Chamberlain“ Íslands, Jóhanna Sigurðardóttir eða Steingrímur J. Sigfússon, en þetta er sú tilfinning sem ég fæ þegar ítrekað er verið að hunsa það sem þingið er að segja, skýran vilja, skýr skilaboð og þau eru hunsuð.

Ég hef ekki enn þá náð því af hverju þessi viðsnúningur hefur orðið af hálfu sérstaklega Vinstri grænna. En vel að merkja, fyrir utan Steingrím J. Sigfússon, hefur enginn annar Vinstri grænn tekið til máls í umræðunni, 2. umr. (ÁÞS: Björn Valur.) Ég spyr líka einmitt, hvar eru hv. þingmenn Ögmundur Jónasson og Ásmundur Einar Daðason sem hafa haft miklar skoðanir á þessu máli? En þeim er auðvitað vorkunn í sinni stöðu því að þeir vita eins og við vitum, þeir eru undir miklum þrýstingi.

Mig langar að halda áfram að tala um vinnubrögðin, frumkvæðið. Ríkisstjórn Íslands sýndi ekkert frumkvæði í byrjun júní. Það átti í rauninni að komast hjá því í lengstu lög að segja nákvæmlega hvert innihald samningsins væri. Þingið tók þá málin í sínar hendur. Í síðustu viku, reyndar í þessari viku, upplýstist allt um bréfaskriftir forsætisráðherra við forsætisráðherra Hollands og Bretlands. Félagi minn og vinkona í þingflokknum, hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir, hefur farið mjög vel yfir það og spurt gildra spurninga: Ef hollenski forsætisráðherrann svarar 12. nóvember og breski forsætisráðherrann svarar 13. nóvember, forsætisráðherra Íslands birtir svörin og segir frá hollensku svörunum 17. nóvember; af hverju er þessi feluleikur með svörin frá Bretlandi? Af hverju er þessi feluleikur með svörin frá Bretlandi? Var breski forsætisráðherrann kannski ekki búinn að svara? Var verið að þrýsta á hann til að svara? Þurfti að samræma svörin? Og eru kannski einhverjar upplýsingar um fleiri bréf sem við fáum ekki að vita um? Allt eykur þetta tortryggni manna, ekki bara stjórnarandstöðunnar, heldur líka fólksins í samfélaginu. Af hverju er ekki hægt að segja hlutina eins og þeir eru? Vissu þau ekki betur í öllu þessu máli eða er einfaldlega verið að segja vísvitandi rangt til í þessu? Það eru stór orð. En af hverju verða íslenskir stjórnmálamenn í vinstri stjórninni, og þá einna helst ráðherrar í ríkisstjórninni, alltaf tvísaga?

Það er hægt að fara yfir marga þætti í málinu. Af hverju verða þeir tvísaga um hvort við séum undir þrýstingi frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eða ekki? Í sumar var Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og svo allt í einu kemur Dominique Strauss-Kahn fram eftir að Íslendingur, ekki Íslendingur úr ríkisstjórninni heldur Íslendingur í samfélaginu, hafði skrifað bréf til hans og hann svaraði því: Nei, við vildum ekki stoppa lánveitingarnar til Íslands. Hverjir voru það? Jú, það voru Norðurlöndin. Þá segir Noregur: Nei, það vorum ekki við. Svíar reyndar segja, jú, við vildum að þetta mál yrði klárað. Hver er að segja satt? Af hverju fylgir ekki forsætisráðherra Íslands því eftir með bréfaskriftum til kollega sinna á Norðurlöndunum? Samvinna við þau er vissulega mikil og góð og mikil saga þar á bak við en við verðum að fá að vita og finna það að forsætisráðherra Íslands gæti íslenskra hagsmuna og standi í lappirnar og inni kollega sína eftir því af hverju menn standi svona að málum, að setja okkur í þessar heljargreipar sem þeir hafa gert.

Ég vil líka geta þess sem margir hafa komið inn á, m.a. hv. þm. Birgitta Jónsdóttir sem hefur talað mikið um að senda nefnd þingmanna til að kynna málstað Íslands. Af hverju er hv. þm. Birgitta Jónsdóttir að draga það fram? Jú, vegna þess að frá upphafi, líka í gömlu ríkisstjórninni, ég ætla ekkert að draga dul á það, en ekki síst núna þegar verið er að semja um þetta mál trekk í trekk, hefur upplýsingaöflun — ég hélt að menn hefðu lært eitthvað af reynslunni — af hálfu ríkisstjórnar Íslands verið verulega ábótavant. Því það er nefnilega þannig að menn skilja ekki í rauninni hvað hefur gerst á Íslandi. Síðan erum við líka með talsmenn, þeir eru þarna úti. Það þarf að virkja þá líka, fá þá með okkur í lið af því menn skilja þetta nefnilega þegar menn fara ofan í alla þessa sögu.

Það kom nefnilega fram í einu bréfi sem var lagt fram á fundi okkar þingmanna í EFTA-nefndinni með þingmönnum Evrópusambandsins. Það kom alveg berlega í ljós í bréfi eins Frakka í franska sósíalistaflokknum, systurflokki Samfylkingarinnar, kann að vera vinstri grænna líka, það kunna að vera einhverjir kommúnistar þar innan þess flokks líka, en eftir að menn höfðu talað við hann og upplýst hann þá skildi hann þetta mætavel. Og sá ágæti þingmaður lýsti því m.a. í bréfi sínu hvaða skilning hann hefði á íslenskum aðstæðum og lýsti um leið gölluðu regluverki Evrópusambandsins, dró fram gallað regluverk Evrópusambandsins varðandi fjármálagerninga. Þetta segir Stéphane Le Foll m.a. í bréfi til okkar þingmanna EFTA og ESB að verið sé að leggja óheyrilegar byrðar á 320.000 íbúa landsins, íbúa sem bera enga ábyrgð á kollsteypu íslenska bankakerfisins eða afleiðingum þess, sem hefur haft miklar og erfiðar afleiðingar í för með sér eins og atvinnuleysi, verulegan skuldavanda heimilanna og fleira. Það eru óábyrg afstaða af hálfu Evrópusambandsins að átta sig ekki á þessu. Þetta er viðhorf frá frönskum sósíalista sem var búinn að kynna sér málið, það hafði verið talað við hann og við hefðum átt að tala við mun fleiri.

Síðan er komið einmitt inn á það sem skiptir í heildinni þetta mál allt miklu. Hann kemur einmitt inn á það að greinilegt er að regluverk Evrópusambandsins þarfnast endurskoðunar. Hvað hefur gerst í millitíðinni? Dregið hefur verið fram að verið er að breyta tilskipunum Evrópusambandsins varðandi fjármálakerfið af því það hefur reynst gallað. En við Íslendingar megum ekki sækja rétt okkar og benda á það fyrir dómstólum að það erum við sem líðum fyrir þetta gallaða regluverk Evrópusambandsins.

Þegar maður fer efnislega yfir málið — ég sé að ég mun ekki hafa nægan tíma í þessari ræðu til að fara yfir málið allt saman — er ljóst að það er með ólíkindum að við skulum hafa afsalað okkur þeim rétti að fara með málið fyrir dómstóla. Meira að segja ef einhver dómstóll innan Evrópusambandsins úrskurðar um málið þannig að hægt væri að túlka það okkur í hag er ekki víst að við fengjum að njóta þess. Hvurslags er þetta?

Ég held einmitt þegar við förum yfir stjórnarskrárákvæðin, sem m.a. hv. þm. Ólöf Nordal hefur farið mjög gaumgæfilega yfir, og þegar við sjáum þau stjórnarskrárbrot hugsanlegu sem felast í þessum Icesave-samningi — Sigurður Líndal hefur m.a. bent á það í grein sinni varðandi þá takmarkalausu ábyrgð sem við erum í rauninni að samþykkja ef það verður gert með þessum gjörningi, megi segja að það stangist hugsanlega á við stjórnarskrána. Ég held einmitt að Icesave-málið og ég hef ekki verið fylgjandi stjórn lagadómstóls sem fjallar sérstaklega um málefni sem snerta stjórnarskrána sem slíka, ég hef ekki verið endilega fylgjandi því, en ég held að það sé komið einmitt tilefni til þess að sjá stjórnlagadómstól. Þetta er dæmigert mál sem hefði farið fyrir hann því að við þörfnumst þess að fá að vita: Fer þetta mál gegn stjórnarskránni? Stríðir það gegn stjórnarskránni? Og ef svo er, hvernig væri þá að ríkisstjórn Íslands biði með að túlka málið þannig að það yrði túlkað stjórnarskránni í hag? En asinn er svo mikill af því það skellur á frostavetur ef málið er látið liggja. Við heyrðum það í sumar að við ættum að steikjast úr hita í sumar ef við mundum bíða með málið. Nú er kominn vetur og það frostavetur.

Hvurslags er þetta? Geta menn ekki andað djúpt og leyft okkur að fara gaumgæfilega yfir málið með tilliti til stjórnarskrárinnar, stjórnarskrár sem var svo heilög í vor að þingið og ekki síst ríkisstjórnin gat ekki beðið með að breyta henni? Af hverju er þá ekki hægt að bíða og fara yfir þetta mál til að átta sig á hvort það stangist á við stjórnarskrána eða ekki? Þetta er makalaust.

Vinnubrögð. Ömurleg, ömurleg, ömurleg hvar sem borið er niður. Það er hægt að breyta þessum vinnubrögðum. Það er margoft búið að rétta fram útrétta sáttarhönd hvort sem er í þessu máli varðandi vinnubrögðin eða öðrum málum. Svo segja sumir að það sé ekki hægt, þetta sé bara svona, málið verði að fara áfram og það verði bara að halda áfram að vinna þetta og málið verði að klárast. Já, málið verður að klárast en ekki svona. Það er hægt að breyta vinnubrögðum.

Ég velti því fyrir mér ef menn líta bara á nafn forsætisráðherra, Jóhanna. Við tökum fyrstu stafina úr nafninu þá stendur eftir Hanna. Þá hugsar maður til ráðhússins í nágrenninu, þar var hægt að breyta vinnubrögðum. Þar er önnur Hanna sem gat breytt vinnubrögðum, gat fengið fólk til þess að hugsa upp á nýtt, fylgdi þeim orðum sínum að taka upp ný vinnubrögð, nýja hugsun. En hún hefur ekki þessa tvo stafi fyrir framan. Hún heitir ekki Jóhanna, hún heitir Hanna, hún heitir Hanna Birna. Hún er að takast á við erfið verkefni alveg eins og ríkisstjórnin. En Hannan í ráðhúsinu fer öðruvísi að, fær fólkið með sér í fjárlagagerð, fær andstöðuna sem þar er til að vinna með sér af því að hún er með hagsmuni borgarbúa í huga, hún er að hugsa til lengri tíma. Sumir vöruðu hana við þessu, það væri nú ekki pólitískt klókt að gera þetta svona. En það eru hagsmunir borgarbúa sem hún setur ofar sínum eigin eða flokksins og þess hefði ég óskað að ríkisstjórn Íslands hefði gert það í þessu máli. (Gripið fram í: … óábyrg …)

Við höfum margoft boðið fram aðstoð okkar í þessu máli varðandi skuldavanda heimilanna. Það er í plaggi frá okkur sjálfstæðismönnum, þingskjali, að setja niður þverpólitískan hóp til að leysa skuldavanda heimilanna. Það þýðir ekkert að gala og góla héðan úr hliðarsal og segja: Óábyrg stjórnarandstaða. Já, við höfum einmitt unnið með allt öðrum hætti í stjórnarandstöðu en annars þessi ágæti og huggulegi fjármálaráðherra gerði á sínum tíma. Við komum nefnilega með tillögur til þess að breyta. Og við sögðum, m.a. varðandi skuldavanda heimilanna, málið er allt of stórt, við megum ekki festast í pólitískum skotgröfum varðandi það mál því það snertir heimilin, að því að það snertir heimilin í landinu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sagt að afskrifa þurfi um 600 milljarða hjá bönkunum vegna skuldavanda heimilanna. Þá þarf að leysa það mál í þverpólitískri sátt því að það hafa allir flokkar ágætishugmyndir til að leysa það, en það þarf þverpólitíska sátt til að reyna að fá líka hina samfélagslegu sátt sem er enn þá mikilvægari. Þetta er dæmi um að við sýnum ábyrga stjórnarandstöðu.

Við sýndum ábyrga stjórnarandstöðu í sumar þegar við tókum málið og gerðum það af reisn í þinginu. Hér gátu allir borið sig vel, stjórn sem stjórnarandstaða. En þegar málið var samþykkt á þinginu þurfti framkvæmdarvaldið enn þá að sýna mátt sinn og megin og segja: Nú getum við aftur, við erum með svo flotta einstaklinga í málinu að við skulum senda fólk aftur út, nokkurn veginn sömu samninganefndina. Síðan koma stjórnmálamennirnir og taka og axla hina pólitísku ábyrgð og við blasir þessi ömurlegi gjörningur, samningar sem eru stórhættulegir íslensku þjóðinni og stríða algerlega gegn hagsmunum íslensku þjóðarinnar og öllum framtíðarkynslóðum.

Svo leyfa menn sér að koma hingað og segja: Ja, þetta mál er nú ágætt. Þetta er bara fínt. Við þurfum að klára það og það er svona nokkurn veginn alveg eins og hið fyrra mál, nema það eru þarna nokkur atriði. Vaxtagreiðslurnar, við þurfum alltaf að greiða þær. Við þurfum alltaf að greiða vaxtagreiðslurnar. Og vextirnir, það eru dúndurvaxtakjör sem við erum með, fastir vextir. En hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson hefur sýnt fram á að það eru síður en svo bestu kjör sem við fáum í gegnum þessa samninga. Ragnars Halls-ákvæðið, það er nokkurn veginn þarna inni, segir ríkisstjórnin.

Af hverju er alltaf þessi blekkingaleikur? Af hverju er alltaf þessi blekkingaleikur sem hæstv. fjármálaráðherra sá í upphafi árs, af hverju er hann viðhafður? Af hverju er þessi blekkingaleikur? Af hverju eru hlutirnir ekki sagðir eins og þeir eru: við fórum með lögin frá þinginu og við gátum bara ekki meir. Af hverju er það ekki sagt í stað þess að reyna að telja þjóðinni trú um að málið sé lítið breytt?

Ragnar Hall segir að búið sé að draga allan broddinn úr ákvæðinu sem er oft kennt við hann og snertir það að verja íslenska hagsmuni.

Indefence-hópurinn fer mjög vel yfir þetta í greinargerð sinni. Sem dæmi má nefna, ef ég má, með leyfi forseta, 1. gr. laga sem eru núna í gildi þar sem kemur fram að ríkisábyrgðin gildi til 5. júní 2024. Hver er niðurstaða Indefence-hópsins? Niðurstaðan er sú að fyrirvari Alþingis hefur verið felldur niður að öllu leyti. Ríkisábyrgðin er algjörlega án takmarkana. Það stríðir líka gegn stjórnarskránni.

Þá erum við einmitt komin að þessum gilda vafa sem Sigurður Líndal bendir á í grein sinni, að við getum ekki samþykkt takmarkalausa ríkisábyrgð. Af hverju má ekki fara yfir málið í nefnd? Við sjálfstæðismenn margbuðum: gerum hlé á málinu, tökum inn þessi skattahækkunarfrumvörp fjármálaráðherra, ræðum þau, tökumst á um þau — til að þoka einhverjum málum áfram því að ríkisstjórnin er búin að fá samþykkt tvö frumvörp á haustþingi, þetta er verkstjórnin, tvö frumvörp sem ríkisstjórnin er búin að fá samþykkt á þessu þingi af því að allur tíminn fer í að reyna að leysa innbyrðis ágreining. Menn tala ekki í norður og suður heldur í suður og vestur og geta ekki einu sinni komið sér saman um Suðvesturlínu, sem er gríðarlega mikilvæg fyrir hagsmuni allra Íslendinga, ekki síst Suðurnesjamanna og atvinnustigsins sem er því miður ekki gott á því svæði.

Nei, Indefence heldur nefnilega áfram og tekur þetta mjög vel fram í umsögn sinni. Þeir fara mjög kerfisbundið yfir allt málið, annars vegar lögin sem eru í gildi sem Alþingi samþykkti og síðan hvernig tillaga ríkisstjórnarinnar liggur fyrir. Þessu er gert lítið úr; það er bara ekkert að marka þetta, segja ráðherrar í ríkisstjórn, þetta er nú ekki alveg rétt. Samt eru í hópnum Indefence-menn sem hafa legið yfir þessu. Fylgt málinu eftir frá upphafi og eiga vonandi eftir að gera alveg til enda, því þeim er misboðið. Þeim er misboðið hvernig vinnubrögð eru viðhöfð af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þeir átta sig á að oft og tíðum getur stjórnarandstaðan ekki fengið sínu framgengt þó að við höfum komist vel áleiðis í sumar. Þess vegna heldur Indefence-hópurinn áfram og er núna að hvetja fólk til að skrifa undir áskorun til forseta Íslands að skrifa ekki undir þetta frumvarp ef það verður samþykkt í þinginu.

Þeir halda áfram og segja m.a. að túlka beri lánasamningana í samræmi við hin umsömdu viðmið frá 14. nóvember 2008, þ.e. Brussel-viðmiðin. Þau eru og eigi að vera í gildi samkvæmt núgildandi lögum. Svo komi þessi lánasamningur þar sem búið er að gjörbreyta vaxtakjörunum, afborgunum og gera ríkisábyrgðina þannig að hún verður endalaus, ljúki ekki 2024 heldur verði hún endalaus, framlengd til 2030, framlengd til 2040 ef svo ber undir. Þá segja Indefence-mennirnir, með leyfi forseta:

„Að setja í viðaukasamninginn texta um að Icesave-samningurinn frá 5. júní sé í samræmi við Brussel-viðmiðin dugir ekki til að svo sé. Þetta ákvæði er hagræðing á sannleikanum og með ólíkindum að samninganefnd Íslands skuli hafa léð máls á því að skrifa undir það. Með því að skrifa undir að fullt tillit hafi verið tekið í samningnum til „fordæmislausra aðstæðna Íslands“ er ríkisstjórnin búin að kasta frá sér öllum möguleikum á að halda því fram síðar á öðrum vettvangi ef þörf krefur, að ekki hafi verið tekið nægjanlegt tillit til erfiðra aðstæðna Íslendinga.“

Það sorglega er að í rauninni kemur þetta viðhorf nákvæmlega fram í bréfi forsætisráðherra, svarbréfi forsætisráðherra til Browns. Mér finnst úr því að lesa bréf forsætisráðherra Íslands, þá gerir forsætisráðherra enga tilraun til þess að tala máli Íslands. Þess í stað fellst hún á öll sjónarmið Breta og Hollendinga og mér finnst hún ganga það langt að undirstrika að ákvæði lánasamninganna sé í samræmi við Brussel-viðmiðin. Ég tek undir það sem segir hjá Indefence-mönnum að forsætisráðherra er í rauninni að taka allar varnir frá okkur Íslendingum ef svo skyldi fara að þessi gerningur yrði samþykktur. Og síðar meir ef við mundum reyna að halda okkar rétti fram, þá er búið að klippa út það að við gætum sagt: Það var ekki miðað við Brussel-viðmiðin, þessi samningur er ekkert í samræmi við Brussel-viðmiðin. En ríkisstjórn Íslands er búin að votta að þessi samningur er í samræmi við það að tekið sé tillit til íslenskra hagsmuna. Er það að gæta íslenskra hagsmuna? Er þetta ríkisstjórn Íslands sem hagar sér með þessum hætti?

Svo verða menn sárir yfir því að því sé velt upp hvort ríkisstjórnin sé að verja íslenska hagsmuni eða ekki. Þá verður bara svo að vera. Það er mín skoðun að svo sé ekki. — Það þýðir ekki að vera með látbragð, ágæti hæstv. fjármálaráðherra, sem væri mun betri hér inni í salnum. Komdu bara og gerðu þetta hérna inni í salnum ef þú þorir það sem þú ert að gera í hliðarsal.

Ég tel að færa megi gild rök fyrir því að ríkisstjórn Íslands hafi ekki staðið vaktina í málinu, sama hvað menn pirrast hér í hliðarsölum og fyrtast í ræðustól við því að menn gagnrýni þessa málsmeðferð alla hjá ríkisstjórninni. Við erum búin að færa gild rök fyrir því að það hefði verið hægt að komast hjá því ef menn hefðu staðið áfram saman eftir meðferð málsins á þingi í sumar. En ríkisstjórn Íslands og einmitt hæstv. fjármálaráðherra hefur ekki enn þá — ágætt að hann skuli vera hérna, hann hefur ekki enn þá sagt okkur hvað hefur valdið sinnaskiptum hans frá því í janúar. Sinnaskiptin voru enn meiri að mínu mati í haust þegar hann kemur með gjörbreyttan samning frá því sem þingið samþykkti. Af hverju er alltaf þessi viðsnúningar?

Ég dró það fram í upphafi ræðu minnar að sumir vilja segja að þetta sé þrýstingur frá ESB. Það er vont ef svo er. Ég mótmæli því sérstaklega hvort sem það eru stofnanir á vegum Evrópusambandsins eða einhverjir aðrir á vegum Evrópusambandsins að þrýsta á okkur. Það er vont. Ég tel reyndar ekki að það sé meginástæðan. Meginástæðan er sú að menn eru raunsæir og vilja gera allt til að halda í völdin og sitja í þeim stólum sem þeir sitja í, bara til þess að halda gamla Sjálfstæðisflokknum frá völdum. Það er hin klassíska klisja — við erum að hreinsa til, hreinsa upp eftir 18 ára valdabaráttu Sjálfstæðisflokksins.

Reynum nú að horfa og líta fram á við. Við lítum óhikað til fortíðarinnar, við gerðum mistök en við gerðum líka ansi margt gott, m.a. byggðum við upp velferðarkerfið sem menn núna rembast við að verja, byggðum upp menntakerfi og samgöngukerfi. Við fáum umboð þjóðarinnar á fjögurra ára fresti. Það er sárt til þess að vita veit ég fyrir hæstv. fjármálaráðherra, en við fengum umboð þjóðarinnar. Er það ólýðræðislegt? Já, við gerðum mistök í gegnum tíðina, það hafa allir gert, en ég held að við höfum ekki gert jafnmikil mistök á jafnskömmum tíma og núverandi ríkisstjórn er að gera fyrir hönd íslenskrar þjóðar (Gripið fram í.) — fyrir hönd íslenskrar þjóðar. Komdu inn í þingsalinn í staðinn fyrir að vera að gala svona og góla úr hliðarsal, það held ég að mundi fara þér betur.

Kjarninn er sá og sem maður skilur ekki enn þá af hverju ríkisstjórnin — mér finnst hún ekki hafa svarað því öðruvísi en svo: Það liggur bara svo mikið á, þetta er allt orðið svo óþægilegt og erfitt og allt það — er að taka á sig ábyrgð sem hún er búin að segja að hún eigi ekkert endilega að standa undir. Samt er hún að taka á sig þessa gölnu ábyrgð. Það er umhugsunarefni, frú forseti, að svona skuli hafa verið haldið á málum. (Forseti hringir.) Það eru vinnubrögðin, það eru vinnubrögð ríkisstjórnar Íslands sem eru að kollvarpa, herra forseti, …

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður þingmanninn að ávarpa forseta á viðeigandi hátt.)

Alveg rétt og ég biðst afsökunar á þessu, ljósið þarf að blikka einhvern veginn öðruvísi þegar annað kyn sest í forsetastól. En, herra forseti, það eru vinnubrögð ríkisstjórnarinnar sem eru að gera þetta mál svona arfavont fyrir íslenska þjóð, því miður.