Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 11:33:47 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:33]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Hæstv. forseti. Í umræðum hér á hv. Alþingi gætir nokkurs misskilnings í ávörpum þingmanna, sérstaklega til hæstv. forseta. Ég skal játa það hér að ég er einn þeirra sem reyna að forðast slíkan rugling og nota aldrei ávarpið frú forseti og fylgi þar með ágætum leiðbeiningum hæstv. forseta í því efni, en hann er einna öruggastur þingmanna í því að ávarpa og felst það í þeirri einföldu staðreynd að skipanin í forsætisnefnd er með þeim hætti að hann er eini karlmaðurinn í þeim hópi, þannig að hann er alltaf öruggur á því hvernig hans ágæta ávarp til hæstv. forseta á að vera hverju sinni. Þannig að ávarp mitt hefur alla tíð verið hæstv. forseti og ég ætla að halda því áfram.

Þetta er ekki eingöngu í spaugi sagt eða á léttum nótum, heldur ekki síst í ljósi þess að í þeirri umræðu sem við eigum nú um stundir hér á hinu háa Alþingi er mjög nauðsynlegt að við höfum sama skilning á því viðfangsefni sem við glímum við hverju sinni. Með öðrum orðum felst í þessum orðum mínum að við reynum að forðast það að tala í kross til þess að við getum haft sömu sýn til þess hvert viðfangsefnið er hverju sinni. Það er alveg ljóst að í þeirri stöðu sem við glímum við í umboði þjóðarinnar er mikil krafa og þörf fyrir samstöðu í þjóðfélaginu í stað átaka og erja um ýmis mál sem upp koma

Ég vil leyfa mér að fullyrða að vinnsla þess máls sem hér er til umræðu, svokallaðs Icesave-samnings sem lýtur að ósk ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta vegna láns viðkomandi sjóðs frá Bretum og Hollendingum, hefur ekki verið með þeim hætti fyrr en í nokkrar vikur á sumarþingi að hægt sé að draga þá ályktun að menn séu að skapa sem mesta samstöðu um þá lausn sem þar er æskilegt að fáist. Við sáum það ágætlega í fyrrahaust hversu gríðarleg átök áttu sér stað um þá einföldu staðreynd sem við blasti að íslenska þjóðarskútan væri undir stórum áföllum og menn leituðu allra leiða til að koma henni á rétt skrið aftur. Þá sáum við það ágætlega og sjáum þess enn stað að gríðarleg átök eru um þær leiðir sem við viljum sigla þessu sama fleyi.

Í frumvarpi fjármálaráðherra hæstv. sem lagt var fram á Alþingi 30. júní sl. var óskað eftir skilyrðislausri og ótakmarkaðri ríkisábyrgð á þeirri skuldbindingu sem hér um ræðir og getur að vísra manna dómi nálgast það að vera í dag um 750 milljarðar íslenskra króna. Það var ljóst að á grundvelli þeirra samninga sem hæstv. ráðherra undirritaði eða staðfesti 5. júní við Breta og Hollendinga fyrir hönd ríkisstjórnarinnar mundu mikil átök hefjast um þá samningsgerð og það endurspeglaðist ágætlega í þeim viðtökum sem frumvarp hæstv. ráðherra fékk þegar það var lagt fram 30. júní. Þá voru viðbrögðin þannig að strax mátti draga þá ályktun að ekki var meiri hluti á Alþingi Íslendinga fyrir þeirri leið sem hæstv. ríkisstjórn hafði lagt til í að fara í þessu máli. Þess vegna var þessi vinna hafin í meðförum fjárlaganefndar og stóð hún fram til loka ágúst í sumar. Ég vil fullyrða að sú vinna miðaðist við það og hafði það að markmiði að ná sem breiðastri sátt um þá óhjákvæmilegu lendingu sem Alþingi Íslendinga hafði krafist með samþykkt þingsályktunartillögu sinnar þann 5. desember 2008. Þó svo að fylkingar hafi riðlast við atkvæðagreiðslu frumvarpsins, sem Alþingi staðfesti 28. ágúst, var engu að síður gríðarlega mikil samstaða um þau skilyrði sem ég vil kalla svo og fyrirvara sem menn náðu saman um að setja inn í það frumvarp sem fjármálaráðherrann hafði lagt fram í júní.

Allir fyrirvararnir miðuðu að því að gera það bærilegra fyrir Íslendinga að takast á við þær skuldbindingar sem óhjákvæmilega leiddu af þessu máli. Ég vil ítreka það hér að afstaða sjálfstæðismanna til málsins og endanlegrar afgreiðslu þess helgaðist af því að vinna okkar í þessu máli miðaði eingöngu að því að lágmarka skaðann fyrir íslenska þjóð vegna þeirra áhrifa sem sú braut og það verklag sem ríkisstjórnin kaus í þessu máli og hefur alla tíð, alveg frá því hún tók við völdum 1. febrúar síðastliðinn, ekki viljað víkja af hefði. Svo ég dragi það saman í örfáum orðum þá hefur hæstv. ríkisstjórn alla tíð unnið að þessu máli undir þeim formerkjum að fjármálaráðherrann mundi hafa skilyrðislausa, ótakmarkaða heimild fyrir því að veita ríkisábyrgð á skuldbindingar tryggingarsjóðsins. Við sjálfstæðismenn höfum alla tíð sett ríkan fyrirvara við þessa leið, af þeirri einföldu ástæðu, sem við höfum alla tíð haldið fram, að við teljum tæpast heimildir í stjórnarskrá til þess að setja og veita framkvæmdarvaldinu ríkisábyrgð sem er svo ótakmörkuð að það liggur ekki einu sinni fyrir hver sú fjárhæð er sem óskað er að fjármálaráðherrann hafi heimild til að staðfesta.

Þetta var staðan og ég er þeirrar skoðunar að sú leið sem valin var af Alþingi í sumar var til muna betri til þess að skapa þá sátt sem nauðsynleg er og lægja þær öldur sem risu þegar í stað þegar fyrir lá að ríkisstjórnin hafði staðfest þessa svokölluðu nauðasamninga sem gerðir höfðu verið við Breta og Hollendinga undir forustu samninganefndar fjármálaráðherra sem Svavar Gestsson, fyrrverandi sendiherra, og Indriði H. Þorláksson skipuðu og voru í öndvegi í.

Ríkisstjórnin fékk í hendur þau lög sem Alþingi setti 28. ágúst eftir staðfestingu forseta Íslands 2. september og gekk til viðræðna á þeim grunni við Breta og Hollendinga og skilaði síðan vinnu sinni til Alþingis í annað sinn, að mínu mati með ófullnægjandi hætti og þannig að draga má í efa heimildir ríkisstjórnarinnar eða framkvæmdarvaldsins til að ganga með þessu móti á svig við þær samþykktir og löggjöf sem Alþingi hefur sett. Í fyrra sinnið gerðist það með frumvarpinu sem kom í júní sem gekk á svig við ákvæði og ályktun Alþingis frá 5. desember og svo gerist þetta aftur með þeim hætti að nú gengur ríkisstjórnin að mínu mati í veigamiklum atriðum á svig við þau ákvæði sem lögin frá 28. ágúst innihalda.

Eðlilega kemur þá upp sama staða og í júní og júlí síðastliðnum að þegar farið er að greina innihaldið í því frumvarpi sem nú kemur fram, rísa þessar óánægjuöldur og þær eru ekki sprottnar af því að menn hafi sérstaka ánægju af því að andmæla því sem gert er, heldur fyrst og fremst af þeim efnisatriðum sem fyrir liggja í frumvarpinu. Það er ekki í gríni gert að menn andmæla þessum áformum, því eins og hefur komið fram oftar en einu sinni og oftar en tvisvar í umræðunni eru alþingismenn sem og fjöldi annarra þjóðfélagsþegna fyrir löngu búnir að fá nóg af þessu máli, ef svo má segja, eru orðnir þreyttir á að ræða það. En eins og einn af fyrirsvarsmönnum Indefence-hópsins svokallaða mælti, þá má þjóðin ekki verða þreytt á þessu máli, einfaldlega vegna þess að að baki þess liggja gríðarlegir hagsmunir sem við verðum að standa saman um að reyna að verja. Því miður hefur sú vörn brotnað upp með því frumvarpi sem hér um ræðir.

Hvernig stendur á þessu? Ég get ekki fundið á því neinar aðrar skýringar en þær að stjórnarflokkarnir hafi mismunandi sýn á því hvernig taka eigi á málinu. Fyrir liggur að Samfylkingin hefur alla tíð við vinnslu málsins haft miklu minni fyrirvara á afgreiðslu þess á meðan Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur haft ríkari fyrirvara á sinni afstöðu, sérstaklega á því frumvarpi sem kom fram í júní. Engu að síður virðast hlutirnir liggja þannig og skipast með þeim hætti að hluti af andstöðunni er að gefa sig, það er alveg ljóst. Hvaða ástæður þar liggja að baki hefur ekki komið fram.

Ég kýs að túlka stöðuna þannig að stjórnarsamstarfið á milli Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingar sé að færast til vinstri. Vinstri grænir eru með öðrum orðum að fá eitthvað í sinn hlut að því gefnu að þetta mál gangi eftir, þetta áherslumál Samfylkingarinnar. Við sjáum þess stað í þeim áformum sem nú eru uppi og fljótlega koma inn til þingsins í skattlagningu, breytingum á ákvæðum og áformum í fjárlagafrumvarpinu, en ekki síst sjáum við þessara átaka stað í umræðu stjórnarflokkanna um orku- og auðlindamál. Í huga okkar sjálfstæðismanna er alveg ljóst að þar liggja tækifæri þjóðarinnar til þess að nýta og eiga möguleika á því að komast þokkalega í gegnum þann brimskafl og það brimrót sem við nú siglum. Þar liggja tækifæri okkar til þess að taka þokkalega á í þeirri siglingu og komast klakklaust í gegnum hana, tækifæri okkar liggja í því að nýta auðlindir landsins. Þar virðist stjórnarstefnan aftur á móti vera að harðna í þeim mæli að áherslur Vinstri grænna fá ríkari framgang heldur en áður var, með þeim hætti að Samfylkingin gefur eftir í þeim efnum, væntanlega með þeirri forsendu að gerðar hafa verið með einhverjum málamiðlunum m.a. til þess að ljúka þessu máli, því það liggur fyrir bæði í orðræðu einstakra þingmanna og hæstv. ráðherra að gríðarlega mikil tengsl eru á milli þessa Icesave-máls og áhuga einstakra stjórnmálaafla, sérstaklega Samfylkingarinnar, að sækja um og gerast aðili að Evrópusambandinu.

Við sjáum það ágætlega að þessi andstaða hefur vaknað að nýju og því miður er gríðarleg óánægja með þá fyrirætlan sem hér kemur fram. Ég segi því miður, einfaldlega vegna þess að ég vil að sem mest sátt geti náðst í þessum efnum, en í sjálfu sér græt ég það ekki þótt mótmælaalda rísi við þeim áformum sem hér birtast. Þessu ber að mótmæla, einfaldlega vegna þess að málið er unnið með þeim hætti að það er ekki viðunandi. Við sjáum þess ágætlega stað núna þegar Indefence-hópurinn, sem ég nefndi hér áðan, er að hefja undirskriftasöfnun að nýju og skorar á forseta Íslands að staðfesta ekki lögin ef þau verða samþykkt óbreytt. Nú þegar liggur fyrir að í þessa undirskriftasöfnun hafa á milli níu og tíu þúsund einstaklingar skráð sig og mótmæla þeim áformum sem hér birtast. Hvað svo sem segja má um slíkt, þá er ég þeirrar skoðunar að þeir sem hafa lagt á sig gríðarlega vinnu í þeim hóp sem kallaður er Indefence, eigi heiður skilið fyrir framgöngu sína og það að leggja alla þá vinnu og erfiði á sig til þess að leggja gott inn við vinnslu þessa máls í því augnamiði að verja hagsmuni íslenskrar þjóðar.

Við sjáum það einnig að í dag er boðaður mótmælafundur á Austurvelli klukkan þrjú, þar sem fólk ætlar að koma saman til að skýra frá óánægju sinni með þá samninga sem liggja fyrir um lok þeirrar milliríkjadeilu sem þetta frumvarp er grundað á.

Mikið hefur verið rætt um það að þingmenn stjórnarandstöðunnar endurtaki sig sýknt og heilagt í þessari umræðu. Ég er raunar þeirrar skoðunar að þetta kalli á mjög ítarlega umræðu. Ég er ekki talsmaður þess að sjónarmið séu margtuggin og að aldrei komi neitt fram í þessari umræðu, en að hluta til má skýra þetta langa ferli, þá miklu umræðu sem á sér stað hér í sölum Alþingis með því að stjórnarandstaðan kalli eftir því hvort fyrir liggi að meiri hluti sé á hinu háa Alþingi fyrir því að afgreiða málið með þessum hætti. Það kann vel að vera að svo sé og ég geri fremur ráð fyrir því að ríkisstjórnin hafi ekki lagt þetta frumvarp fram í annað sinn nema að hafa þokkalega tryggingu fyrir því að svo sé.

Það liggur fyrir að í sumar vannst þetta mál með því að ákveðnir einstaklingar, sérstaklega ákveðnir hv. þingmenn úr hópi Vinstri grænna, höfðu mjög ríka fyrirvara fyrir þeirri fyrirætlan sem birtist í frumvarpinu í júní. En í þeirri umræðu sem hefur nú staðið í alllangan tíma við 2. umræðu vill bara einfaldlega svo til að þessir hv. þingmenn hafa ekki tekið til máls og skýrt afstöðu sína. Það væri mjög æskilegt að hv. þingmenn Lilja Mósesdóttir, Ögmundur fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra Jónasson, Atli Gíslason og Ásmundur Einar Daðason gerðu þinginu og þar með þjóðinni grein fyrir því í hverju afstaða þeirra liggur. Ef afstaða þeirra til þessa máls sem hér liggur fyrir hefur breyst frá því í sumar væri mjög gott fyrir umræðuna, ef vilji manna stendur til þess að jafna ágreining, að sjónarmið þeirra í þessu máli kæmu fram til þess að við gætum þá tekist á um þau, skipst á skoðunum og rökrætt um það hvaða þættir væru hér á ferðinni sem gerðu það að verkum að afstaða þeirra hefði breyst. Við höfum ekki fengið tækifæri til þess í fjárlaganefnd, sem fékk þetta mál til meðferðar, að skiptast þannig á skoðunum einfaldlega vegna þess að tími fjárlaganefndar við þetta verkefni fór fyrst og fremst í það að kalla einstaklinga og sérfræðinga til viðtals, en umræða um efnisinnihald þeirra viðræðna, rökfærslur nefndarmanna og umræða um álit sem óskað hafði verið eftir, hefur því miður ekki farið fram.

Ég er þeirrar skoðunar að ef fjárlaganefnd hefði fengið eða gefið sér tíma til að ræða þetta betur en hún gerði, þótt ekki væri nema með örfáum fundum, stæðum við ekki í þeim sporum sem við stöndum í nú. Því miður.

Ástæða þess að ég vek máls á þessu hér er ekki síst sú að vissulega er það þannig að hér bíða mörg mikil mál og stór sem við þurfum að taka til umræðu og umfjöllunar og vonandi gefst okkur færi á að vinna þau með þeim hætti að við náum saman í einhverjum efnum. En meginatriðið er að kalla eftir því hvort grunnur sé til að gera breytingar á því frumvarpi sem hér liggur fyrir, hvort mögulegt sé að draga úr þeim skaða sem við í Sjálfstæðisflokknum í það minnsta höfum haldið fram að felist í því. Hvort það sé gerlegt, hvort það sé yfir höfuð möguleiki að opnað verði á það af stjórnarliðum að gera breytingar á því frumvarpi sem komið er fram.

Hæstv. utanríkisráðherra gengur hér í salinn, er staðan virkilega sú að hans mat sé það að annaðhvort samþykki Alþingi frumvarpið sem liggur fyrir algerlega óbreytt, ekki verði hreyft við kommu, eða er gerlegt að við reynum að lágmarka þann skaða sem að okkar mati liggur í því frumvarpi sem hér er birt? Er yfir höfuð gerlegt að gera einhverjar breytingar á því verki sem hér liggur fyrir? Er það mögulegt? Er vilji til þess? Ef það er ekki, væri mjög gott að fá það fram að annaðhvort samþykki Alþingi þetta skjal með þeim hætti sem hér liggur fyrir eða þá að málið sé allt í uppnámi.

Í 1. gr. frumvarpsins kemur fram að hæstv. fjármálaráðherra óskar eftir því að fá heimild til að veita þá ábyrgð sem hér er gerð að umtalsefni og að hún verði veitt samkvæmt samningunum frá því 5. júní og þeim viðaukasamningum sem gerðir hafa verið. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Þessi heimild takmarkast ekki af öðrum ákvæðum laganna. Ábyrgðin, sem í samræmi við lánasamningana gengur í gildi 5. júní 2016, ræðst einvörðungu af ákvæðum samninganna.“

Í 2. gr. frumvarpsins segir síðan:

„Ekkert í lögum þessum felur í sér viðurkenningu á því að íslenska ríkinu hafi borið skylda til að ábyrgjast greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi.“

Hæstv. forseti. Þessar tvær setningar fela í sér ákveðna mótsögn. Annars vegar er viðurkennd sú ábyrgð sem liggur í þessu máli og hún er algjörlega óskilyrt og ótímabundin og fjárhæðin liggur ekki fyrir. Hins vegar er ítrekað að íslenska ríkið beri ekki ábyrgð á þessum greiðslum. Ég fæ ekki séð að það skipti í raun nokkru máli að tiltaka þetta ákvæði ef menn eru þegar búnir með samningum að undirgangast þá skuldbindingu sem hér um ræðir. Þá skiptir síðari liðurinn í sjálfu sér ekki máli, því áhrifin af honum verða engin. Það eina sem segir í 2. gr. er að ef niðurstaða og úrlausn dómstóla verður með þeim hætti að íslenska ríkið beri ekki greiðsluskyldu á þessu eigi fjármálaráðherra að efna til viðræðna við aðra aðila lánasamninganna.

Þá spyr maður í rauninni í ljósi þeirra ákvæða sem gilda í 1. gr.; um hvað á að ræða? Um hvað ætla menn að ræða í þessum efnum? Þegar fyrir liggur að með samningunum er íslenska ríkisstjórnin búin að skuldbinda þjóðina til að standa við allar þessar skuldbindingar með öllum þeim skilmálum sem þarna greinir frá, um hvað ætla menn þá að ræða? Það fer væntanlega eftir áhuga hvers og eins, ég geri ráð fyrir því að sumir hæstv. ráðherrar muni þá ræða í það minnsta um mögulega aðildarumsókn að Evrópusambandinu og annað sem kemur þessari greiðsluskuldbindingu sem þjóðin hefur áhyggjur af ekkert við, ekki nokkurn skapaðan hlut.

Síðan kemur fram í greinargerð frumvarpsins að ríkisstjórnin hefur í raun komið að endapunkti. Hún viðurkennir, eins og tiltekið er í greinargerðinni, að hún komist ekki lengra með málið, nauðsynlegt sé að ljúka því.

Enn fremur kemur fram í greinargerðinni að okkur Íslendingum eru að auki sett ákveðin skilyrði um það hvernig við eigum að fara með málið hér í sölum Alþingis. Það er raunar alveg undarlegt ef maður leggur það til viðbótar þeim skilmálum sem inn í lánasamningana eru settir og allir viðurkenna að eru mjög strangir og Bretum og Hollendingum í vil, þá er það sagt hér berum orðum í greinargerð frumvarpsins að nauðsynlegt sé að breyta lögum sem Alþingi setti í lok ágúst. Síðan er sagt, með leyfi forseta:

„Verði þessar lagabreytingar ekki gerðar fyrir 30. nóvember næstkomandi geta bresk og hollensk stjórnvöld rift samningunum.“

Okkur eru með þessum hætti sett tímamörk um það hvernig Alþingi á að starfa. En stóra spurningin lýtur e.t.v. að því hvort Bretar og Hollendingar munu rifta þessum samningum. Ég hef enga trú á því að svo verði, ekki neinar, því þetta eru mjög góðir samningar fyrir þá að allra mati. Meira að segja liggur fyrir í bréfi frá forsætisráðherra Breta að hann fagnar þessu mjög og sérstaklega því að íslenska ríkisstjórnin líti svo á að þessir samningar séu orðnir skuldbindandi fyrir íslenska þjóð. En jafnframt kemur fram í þessari sömu greinargerð að frumvarpið sé lagt fram í því skyni að samræma lánasamningana og viðaukasamningana. Svo segir enn og aftur í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Þetta tryggir að ríkisábyrgðin verði óskilyrt og þess gerist ekki þörf að túlka ákvæði samninganna með hliðsjón af þeim lögum sem heimila fjármálaráðherra að veita tryggingarsjóðnum ríkisábyrgð. Samkvæmt þessu eiga samningarnir að marka alfarið réttarstöðu aðila á grundvelli enskra laga.“

Orðalag 1. gr. frumvarpsins tekur af öll tvímæli um þetta. Því kem ég enn og aftur að því hvernig í ósköpunum standi á því ef þetta er vilji Breta og Hollendinga og íslensku ríkisstjórnarinnar, hvaða tilgangi þjónar það þá að efna til viðræðna við aðila lánasamninganna um það hvernig með þessi mál á að fara? Þetta er atriði sem við þurfum sérstaklega að skýra.

Ég vil einnig gera sérstaklega að umtalsefni sjálfa ríkisábyrgðina, einfaldlega vegna þess að um ríkisábyrgðir gilda í raun sérstök lög. En eins og kom fram hjá mér áðan, er tiltekið að ef þetta frumvarp verði að lögum muni ákvæði samninganna og raunar ákvæði 1. gr. frumvarpsins þýða það að hæstv. fjármálaráðherra okkar Íslendinga hafi heimild til að veita ríkisábyrgð sem nær til höfuðstólsins og vaxtanna, án þess að íslensk lög takmarki þá heimild við ákveðna fyrirvara. Þetta er tiltekið í athugasemdum við 1. gr. og ber að taka mjög alvarlega. Þetta þýðir að íslensk lög munu ekki einhliða ákvarða réttarstöðu aðila samninganna. Því samningarnir eiga að skera úr um þetta og um samningana gilda bresk lög. Þar með er búið að framvísa ákveðnum þætti íslensks réttar yfir til bresks réttar og það er óásættanlegt að mínu mati.

En ég nefndi hér ríkisábyrgðina og að um hana giltu ákveðin lög. Ég vil tiltaka það sérstaklega að í 2. gr. þeirra laga sem um ríkisábyrgð gilda og gilda í raun enn, því ekki er búið að afnema þau, segir um beiðni ríkisstjórnar um ríkisábyrgð á skuldbindingum þjóðarinnar, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi sem fjármálaráðherra leggur fram um veitingu ríkisábyrgða skal liggja fyrir umsögn Ríkisábyrgðasjóðs samkvæmt lögum nr. 43/1990, um Lánasýslu ríkisins, á eftirtöldum þáttum:

1. Mat á greiðsluhæfi skuldara.

2. Mat á afskriftaþörf vegna áhættu af ábyrgðum.

3. Mat á tryggingum sem lagðar verða fram vegna ábyrgðarinnar. Fjármálaráðherra er heimilt í reglugerð að ákveða hámark veðsetningarhlutfalls.

4. Mat á áhrifum ríkisábyrgða á samkeppni á viðkomandi sviði.“

Sumt af þessu á ekki við um þetta mál sérstaklega. En grundvallaratriðið í þessum efnum er að þegar ríkisábyrgð er veitt hljótum við öll, hvar svo sem í flokki við stöndum, að gera kröfu til þess fyrir hönd íslenskra skattgreiðenda, þó ekki væri annarra, að sú ábyrgð sem krafist er að þeir beri ábyrgð á sé þokkalega vel tilgreind. En í þeim efnum standa mjög miklar deilur. Við sjáum það nú á síðustu dögum að umræða er um vaxtakjörin. Hér hafa verið leidd fram rök sem sýna að hagstæðara geti verið að þessi skuldbinding beri fremur breytilega vexti en þá föstu 5,5% vexti sem um hefur verið samið. Munur í þeim efnum kann að liggja á bilinu 80–90 milljarðar. Enn fremur hefur verið mikil umræða um það sem kallað hefur verið gengisóvissa samninganna. Þar hafa verið leidd fram mjög sterk rök til viðbótar þeim sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur bent á, m.a. hefur fyrirtæki sem ber heitið IFS ráðgjöf gert mjög ítarlega og góða greinargerð á þessum óvissuþætti. Því hefur verið mótmælt og andmælt í rauninni af efnahags- og viðskiptaráðuneytinu. Ég tel nauðsynlegt að fjárlaganefndinni sé gefinn tími til þess að fara yfir þessa þætti.

Enn fremur hefur verið bent á í þessum efnum, sérstaklega því sem lýtur að vaxtagreiðslunum, að þar sé fyrirhugað að leggja á okkur mjög þungar (Forseti hringir.) skuldbindingar. Þótt ekki væri nema til að endurmeta þær forsendur sem þar koma fram, hæstv. forseti, þá held ég að fjárlaganefndin hafi ærið verk (Forseti hringir.) á milli umræðna um þetta mál.