Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 12:06:28 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:06]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir orð hans og spurninguna. Þetta er í rauninni meginástæða þess að lagt var í þá vegferð af hálfu fjárlaganefndar í sumar, að rýna það frumvarp sem fjármálaráðherrann hafði lagt fram í júní. Ástæða þess var í rauninni mjög einföld því þegar frumvarpið kom fram 30. júní, grundvallað á þeim samningum sem hæstv. ráðherra hafði undirritað 5. júní, höfðu forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar þá þegar, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, uppi þau orð um þá fjárhagslegu byrði sem af þessu leiddi, að það varð að rýna það betur. Hæstv. ráðherrar höfðu þau orð uppi að skuldbindingin sem hér um ræddi og gæti hugsanlega fallið á íslenska þjóð væri ekki „nema“ á bilinu 75–125 milljarðar. Hæstv. fjármálaráðherra hafði þau orð uppi að það sæi fram á glæsilega niðurstöðu en dró þau síðan til baka. Þegar nánar var að gáð kom einfaldlega í ljós að sú skuldbinding sem þarna var á ferðinni og hæstv. ráðherrum, báðum tveim, hafði yfirsést var einfaldlega miklu, miklu hærri fjárhæð en þeir höfðu nokkurn tímann látið í veðri vaka. Og af þeim ástæðum settist Alþingi niður við það að reyna að búa til reglur sem innihéldu — í grunninn er þetta svo einfalt — það regluverk að ef svo ólíklega færi að íslensk þjóð lenti undir einhverjum eða í einhverjum áföllum og ætti í erfiðleikum með það að halda úti því þjóðfélagi sem við viljum öll lifa og starfa í, yrði að setja einhverja fyrirvara inn í ábyrgðarskuldbindinguna sem leiddi til þess að greiðsluskyldan yrði ekki meiri en við teldum okkur standa undir. (Forseti hringir.) Þetta er svo einfalt að við vorum einfaldlega að verja okkur fyrir þeim misskilningi sem hæstv. ríkisstjórn virtist hafa lagt í málið.