Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 12:08:45 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þetta greinargóða svar því það er mjög mikilvægt að halda því til haga hver hugsunin var við gerð þessara efnahagslegu fyrirvara og mikilvægi þeirra í öllu þessu máli. Við vorum líka með lagalega fyrirvara sem er eitthvað búið að þynna út núna sýnist manni, þó svo þeir væru ágætir til síns brúks þá skiptu þessir fyrirvarar líklega ekki minna máli.

Það er annað sem hefur komið fram í umræðunni, frú forseti, það eru þau vaxtagjöld sem við erum að greiða, eða vextir sem við erum að greiða þegar á þessu ári. Ef ég man rétt eru þeir reiknaðir alveg frá því í janúar 2009 og — (Gripið fram í: Átta.) 2008 (Gripið fram í: Nei, 2009.) 2009 já, janúar 2009, og munu nema á þessu ári 35–40 milljörðum eða eitthvað slíkt. Við það bætast svo 3,5 milljarðar að mér er sagt í umsýslukostnað. Ég velti fyrir mér því þingmaðurinn er mjög reyndur úr sveitarstjórnargeiranum og hér á Alþingi, stjórnsýslunni, búinn að gera marga samninga í gegnum tíðina, hvort þetta geti talist eðlilegt að í ljósi aðdraganda málsins, í ljósi umfangs málsins og í ljósi eðli þess, að í fyrsta lagi séum við að borga vextina svona langt aftur í tímann og í öðru lagi að við séum að greiða Bretum og Hollendingum 3,5 milljarða í umsýslukostnað með þessum pappírum sem þeir eru að henda í okkur.