Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 12:10:49 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:10]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, ég segi það sem mína skoðun afdráttarlausa að mér finnst þetta óeðlileg gjörð og þau tvö atriði sem hv. þingmaður nefnir, vextir frá 1. janúar 2009 og það að íslenskir skattgreiðendur skuli vera settir í þá stöðu að þurfa að greiða Bretum og Hollendingum umsýslukostnað er í hæsta máta óeðlilegt og er hluti af því sem ég vil kalla nauðasamninga fyrir íslenska þjóð. Þetta er ekki síst ámælisvert í ljósi þess að skuldbindingin sjálf sem tekur við ber 5,5% fasta vexti, sem þýða það að vaxtagreiðslur vegna þessa eru 100 milljónir á dag. Þegar maður rýnir tölur um vaxtakostnað ríkisins fram í tímann og skoðar síðan viðskiptajöfnuð landsins í fortíð, nútíð og framtíð, og ég tek það fram að þetta byggir á tölum frá Seðlabanka Íslands, er ekkert óeðlilegt þó að menn hafi af þessu áhyggjur.

Ég vil aðeins nefna eitt atriði varðandi efnahagslegu fyrirvarana sem hv. þingmaður nefndi áðan. Það lýtur að áliti meiri hluta fjárlaganefndar varðandi það mál, sem ber að hafa í huga og muna hvernig sett er fram. Í áliti nefndaráliti meiri hlutans segir og það er tekið upp í greinargerð þessa frumvarps, með leyfi forseta:

„Ríkisábyrgðin grundvallast á því að fjárhagsleg byrði vegna hennar verði innan viðráðanlegra marka og hafa því eftirfarandi viðmið verið sett til að unnt sé að leggja mat á greiðslugetu þjóðarbúsins á hverju ári.“ Og hver skyldu viðmiðin vera?

„1. Hlutfall erlendra skulda þjóðarbúsins af vergri landsframleiðslu fer yfir 240%.

2. Hlutfall erlendra skulda opinberra aðila af skatttekjum fer yfir 250%.

3. Hlutfall erlendra afborgana og vaxta af útflutningstekjum fer yfir 150%.

Þannig er gert ráð fyrir að viðræður verði teknar upp um lánasamningana verði skuldaþol þjóðarbúsins og ríkissjóðs ósjálfbært.“

Þetta eru allt mælikvarðar sem meiri hluti fjárlaganefndar (Forseti hringir.) og segir í þessari greinargerð líka, eru þegar farnir eins og sagt er stundum „fjandans til“.