Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 12:13:13 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:13]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðu hans. Í ræðunni kom fram — og það væri ágætt að hann leiðrétti mig ef um misskilning er að ræða — að mjög margt af því sem varðar þetta mál væri þegar komið fram og hann talaði um að ýmsir væru að gagnrýna umræðuna og að menn væru að endurtaka sig. Ég verð bara að mótmæla þessum orðum, ef ég hef skilið hann rétt, vegna þess að ég tel að stöðugt séu að koma fram nýjar upplýsingar í þessu máli. Má þar nefna greinargerð sem Daniel Gros og samstarfsfélagar hans skrifuðu varðandi það að hann teldi að það væri hugsanlegt að spara u.þ.b. 190 milljarða ef jafnræðisreglunni væri beitt.

Ég vil líka benda á annan pistil sem hv. þm. Ólöf Nordal skrifaði í gær þar sem hún fjallar um Dúbaí og hver áhrif áfallsins eða hrunsins þar munu hugsanlega hafa á Icesave-skuldbindingarnar. Það er náttúrlega þannig að litla Ísland er orðið mun tengdara umheiminum en áður og þar leiðir hún líkum að því að þar sem Dúbaí virðist ekki geta staðið við stóran hluta af skuldbindingum sínum muni það hafa töluverð áhrif á vextina í heiminum. Ég hef mikinn áhuga á að heyra af því hvort einhver umræða hafi farið fram í fjárlaganefnd fyrir 2. umræðu, ég veit að ekki var nein efnisleg umræða en hvort það hafi komið einhverjir gestir, menn frá Seðlabankanum eða öðrum greiningarfyrirtækjum, þar sem farið hafi verið í gegnum það mat sem Seðlabankinn gerði í sumar á því að það væri best að vera með fasta vexti frekar en breytilega vexti. Einnig væri fróðlegt að vita hvort það hafi verið gerð einhver greining á því hvernig vaxtaþróun yrði í (Forseti hringir.) heiminum þar sem hlutirnir gerast núna mjög hratt og allt breytist frá viku til viku og jafnvel frá degi til dags. Ég hefði (Forseti hringir.) mikinn áhuga á að heyra um þetta frá hv. þingmanni.