Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 12:53:51 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:53]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður deilir áhyggjum mínum af þingræðinu, að við séum að veikja þingræðið með því að taka löggjöf sem Alþingi setti í sumar og bera þau lög undir Breta og Hollendinga. Mig langaði að biðja hv. þingmann um að velta þessu aðeins fyrir sér með mér.

Annað sem hv. þingmaður talaði um var að tíminn hjálpaði. Nú er búið að boða enn einn dómsdaginn í þessu máli, 30. nóvember á heimurinn að farast ef við samþykkjum ekki Icesave. Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að hún hefur meiri þingreynslu en ég, hvað hún telji að gerist hérna 30. nóvember ef Alþingi hefur ekki gengið að skilyrðum Breta og Hollendinga.

Svo langar mig aðeins líka að fjalla um fyrirvarana, því að því hefur verið haldið fram hér í þingsal að þessir nýju fyrirvarar séu betri en gömlu fyrirvararnir. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi hitt einhvern Íslending sem er sammála því að þessir nýju fyrirvarar séu betri en þeir gömlu, og þá á ég við einhvern sem er ekki alþingismaður.