Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 13:21:57 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Þessar umræður hér um matarhlé eru fyrst og fremst réttlætismál. Ekki þannig að það sé kannski höfuðmálið en það skiptir þó máli að forseti stjórni af mildi sinni gagnvart þingmönnum.

Ég vil koma tveimur atriðum á framfæri við forseta og biðja hana vinsamlegast að skoða. Enginn stjórnarþingmaður er á mælendaskrá og bið ég forseta að beina því til formanna stjórnarþingflokka að þeir athugi hvort þingmenn þeirra svari ekki þeim fyrirspurnum sem beint hefur verið til þeirra.

Ég vil síðan, frú forseti, ítreka það, sem lagt var fram á fundi með forseta, að við erum reiðubúin að taka þetta mál af dagskrá tímabundið þannig að við komum öðrum mikilvægum málum að, svo sem umræðu um fjáraukalögin og umræðu um skattamál ríkisstjórnarinnar og annað. Þó að við séum ekki endilega sammála þeim erum við tilbúin til að hleypa þeim að til þess að þau geti farið til nefnda, þau góðu mál, og fengið þar þá umfjöllun sem þarf. Við getum síðan haldið áfram þeirri umræðu sem nauðsynleg er (Forseti hringir.) varðandi þetta stóra mál.