Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 13:46:42 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:46]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er þeirrar skoðunar að sú samningsgerð sem hér liggur fyrir, þ.e. að færa alla þessa óvissu úr íslenskum lögum inn í samningana sjálfa, sé grunnurinn að ánægju þessa margumrædda einstaklings sem ríkir yfir Bretlandi næst á eftir frú Elísabetu. Hver sá sem nær 100% árangri í samningi hlýtur að gleðjast og á þeim grunni er örugglega bréf þessa manns. Það er einfaldlega þannig að samningarnir og frumvarpið sem byggir á þeim ávísa öllum ágreiningi í þessu máli til annaðhvort breskra dómstóla eða að það þurfi bera það undir EFTA-dómstól. Það er búið að tryggja það að íslensk þjóð hefur ekki forræðið sjálft í málinu. Það segir sig sjálft að hann er afskaplega ánægður með það.

Ég vil aðeins nefna það sem ég held að við þyrftum líka að krefjast og kalla eftir svörum við frá stjórnarliðum í þessu, það er hvernig þeir telja að þeirri óvissu sem ríkir í íslensku efnahagslífi verði eytt með þeim samningum sem hér er lagt til að verði staðfestir. Það hafa ekki komið fram skýringar á því hver sýn stjórnarliða er til þess að málsmeðferðin sem þeir tala fyrir og við fordæmum, hvernig sú málsmeðferð sem þeir mæla fyrir eigi að bæta úr stöðu dagsins. Það væri mjög fróðlegt að fá þó ekki væri nema fimm mínútna ræður frá stjórnarliðum um þau efni, en því miður hefur þeim ítrekuðu óskum ekki verið sinnt og ekki þarf að kenna því um að maturinn tefji fyrir þeim.