Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 13:53:39 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:53]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir svarið. Ég vildi samt taka þetta aðeins lengra vegna þess að þótt þingmaðurinn segi að hann telji að aðkoma Evrópusambandsins hafi ekki verið nein í þessu ferli, velti ég því fyrir mér hvort áhrifa Evrópusambandsins hafi kannski gætt í því hvernig hefur verið haldið utan um þetta. Nú sér maður t.d. forgangsröðunina hjá ríkisstjórninni. Í sumar var fyrst farið í það að sækja um aðild að Evrópusambandinu áður en Icesave-málið var tæklað, hvort það geti síðan hafa gert að verkum, eins og hv. þm. Pétur Blöndal hefur margítrekað bent á hérna, að það sé raunar engin raunveruleg tímapressa á málinu núna. Fyrsta endurskoðun á áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur farið fram og seðlabankastjóri segir núna að hann sé að taka til við að draga á lánið frá Norðurlöndunum, við höfum bent á það ítrekað og lagt fram dagskrártillögu þess efnis að kannski væri nær að þingið færi að einbeita sér að því að afgreiða fjárlögin og séum tilbúin til að fresta þessari umræðu og meira að segja semja um ræðutíma á skattatillögunum þó að við séum misjafnlega sammála þeim.

Hver getur verið ástæðan fyrir því að samt sé svona mikil pressa á stjórnarliðum að klára málið? Getur verið að það tengist áskoruninni sem við vorum að fá frá Evrópuþinginu þar sem þeir skora á Alþingi Íslendinga og skipta sér beint af þessu máli og bæta raunar við að annars sé hætta á að það hafi áhrif á aðildarumsókn Íslands sem við vitum að öðrum stjórnarflokkanna er mjög umhugað um?