Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 13:55:50 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:55]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er augljóst öllum þeim sem fylgjast með þessu máli öllu að aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu knýr a.m.k. annan stjórnarflokkinn áfram í þessu máli, ég held að sé alveg ljóst. Við urðum vitni að því í vor hversu illa málið var lesið af stjórnarflokkunum þegar það kom fram fyrst fram og sérstaklega Samfylkingunni sem hefur þessa stefnu mjög skýra og tiltölulega óumdeilda innan sinna raða. Hún er vissulega umdeildari hinum megin stjórnarborðsins. Það liggur einfaldlega fyrir að ástandið er með þeim hætti og mat manna innan lands er með þeim hætti og það er örugglega líka horft til þess að með sama hætti innan Evrópusambandsríkjanna. Menn þráttuðu um það hér í vikunni hvað væri til í þeirri samþykkt sem vitnað var til á Bloomberg-vefnum, samþykkt þingmanna á Evrópuþinginu, hvað svo sem er til í því. Menn sögðu að þetta hefði verið misjafnlega vel þýtt. Það sýnir okkur engu að síður að umræðan er annars staðar en bara hér og það er bein tenging á milli þessara tveggja mál.

Ég veit ekki og hef ekki skilið almennilega til fulls hve mönnum liggur mikið á. Þetta eru samningar ríkja á milli og mér sýnist og hefur þótt vanta eða skorta á rökstuðning þeirra sem vilja knýja þetta mál í gegn fyrir því sem ég nefndi áðan, að það þurfi að knýja þetta fram til að treysta og efla möguleika okkar til að ná einhverjum stórum nýjum áföngum. Ég vil fá að sjá þá, ég vil fá að heyra hverjir þeir eru, hvað breytist með öðrum orðum við það að Alþingi leggi þessar kvaðir á íslenska þjóð. Meðan það er ekki upplýst hver sú sýn stjórnarliðanna er sem vilja halda málinu fram, (Forseti hringir.) verða að sjálfsögðu deilur um þetta mál, bæði á Alþingi og í þjóðfélaginu.